Hrossakjöt á dönskum pítsum

AFP

Dönsk yfirvöld ætla að kæra slátrara í landinu til lögreglunnar fyrir að selja hrossakjöt sem nautakjöt, m.a. í álegg til pítsastaða.

Yfirmaður rannsókna hjá danska Dýra- og matvælaeftirlitinu, Michael Rosenmark, segir í frétt AP-fréttastofunnar, að sýni sem tekin voru úr vörum Harby-sláturhússins skammt frá Árósum, hafi innihaldið blöndu af hrossakjöti, svínakjöti og nautakjöti.

Í frétt AP segir að slátrarinn segir að veitingahúsin hafi vitað að kjötið innihéldi m.a. hrossakjöt. Fyrrverandi starfsmaður sláturhússins segir hins vegar að viðskiptavinir þess hafi verið blekktir.

mbl.is