Króatía fær grænt ljós

Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jose Manuel Barroso ásamt forsætisráðherra Króatíu, Zoran …
Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jose Manuel Barroso ásamt forsætisráðherra Króatíu, Zoran Milanovic AFP

Evrópusambandið telur að Króatía standist þær kröfur sem settar eru fyrir inngöngu í sambandið og hefur lagt blessun sína yfir að taka Króatíu inn í júlí. Með því verður Króatía 28. landið til að fá aðild að ESB.

Samkvæmt skýrslu ESB um Króatíu þarf landið að gera betur í baráttunni gegn glæpastarfsemi, svo sem spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi. Fáir dómar séu kveðnir upp vegna skipulagðrar glæpastarfsemi. Eins séu dómar vægir í spillingarmálum, séu menn dæmdir fyrir slík brot. Dómarnir eru oft skilorðsbundnir og lítið um eignaupptöku.

Króatar kjósa sína fyrstu þingmenn á Evrópuþingið hinn 14. apríl en alls verða kjörnir 12 þingmenn sem er gert að starfa í eitt ár. Næst verður kosið til Evrópuþingsins árið 2104 og þá til fimm ára.

Króatía verður ríki númer tvö af þeim ríkjum sem áður tilheyrðu Júgóslavíu. Níu ár eru síðan Slóvenía gekk í ESB.

mbl.is

Bloggað um fréttina