Fundir fleiri en fimm bannaðir

Forystumenn valdaráns hersins í Taílandi fyrirskipuðu fyrrum ráðherrum í ríkisstjórn landsins að gefa sig fram við herinn fyrir lok dagsins. Þetta kom fram í tilkynningu sem lesin var upp á sjónvarpsstöðum landsins.

Forystumenn valdaránsins höfðu áður fyrirskipað öllum sjónvarpsstöðvum og útvarpsstöðvum að hætta að sýna hefðbundnar dagskrár sínar og birta aðeins efni frá hernum. Tilgangurinn er sagður að tryggja að almenningur fái réttar upplýsingar. Milli tilkynninga frá hernum hafa verið sýnd merki ýmissa deilda innan hersins undir ættjarðartónlist. Valdaránið er sagt ill nauðsyn til þess að koma á röð og reglu í landinu í kjölfar pólitískra átaka undanfarna mánuði.

Þá hafa forystumenn hersins bannað pólitísk fundahöld þar sem fleiri en fimm manns koma saman að viðlagðri sekt eða eins árs fangelsi. Einnig hefur verið komið á útgöngubanni frá klukkan 10 á kvöldin til klukkan 5 um morguninn.

Stjórnarskrá landsins hefur sömuleiðis verið felld úr gildi fyrir utan þann hluta sem fjallar um konungsríkið. Þess í stað hafa herlög tekið gildi í landinu. Þá hafa borist óstaðfestar fréttir af því að leiðtogar stjórnmálaflokka í landinu hafi verið handteknir.

Forseti Frakklands, Francois Hollande, fordæmdi í dag valdaránið í Taílandi og kallaði eftir því að réttarríkið yrði umsvifalaust endurreist í landinu og boðað til kosninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert