Neita að hafa lokað samfélagsmiðlum

Orðrómur hefur verið um að stjórnvöld í Taílandi hafi látið loka samfélagsmiðlum, svo sem Facebook og Twitter, en þau neita því. Mjög erfitt hefur verið að komast inn á Facebook það sem af er degi í Taílandi.

Í tilkynningu sem herforingjastjórnin hefur sent frá sér til taílenskra fjölmiðla kemur fram að ekki standi til að loka Facebook heldur hafi verið um tæknilegt vandamál að ræða. 

Herinn tók völdin í Taílandi í síðustu viku og setti meðal annars útgöngubann á kvöld- og næturlagi. Jafnframt voru margir fyrrverandi ráðamenn settir í farbann. 

Viðskiptalífið er nú að færast í eðlilegt horf á ný og allt gert til þess að koma í veg fyrir að ferðamenn hætti við ferðalög til landsins.

BangkokPost

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert