Herinn handtók Yingluck Shinawatra

Systkinin Yingluck og Thaksin Shinawatra.
Systkinin Yingluck og Thaksin Shinawatra. AFP

Yingluck Shinawatra, fyrrverandi forseti Taílands, nokkrir fjölskyldumeðlimir hennar og stjórnmálamenn voru í dag hantekin af taílenska hernum. Shinawatra ásamt yfir hundrað stjórnmálamönnum var í dag gert að mæta á fund herforingjaráðsins en í kjölfarið var hún handtekin.

Gen Prayuth Chan-ocha herforingjastjóri fundaði einnig í dag með háttsettum embættismönnum og sagði að koma yrði á umbótum áður en boðað yrði til kosninga.

Sex af æðstu herforingjum landsins var falið að fara með stjórn landsins, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Eins og kunnugt er hrifsaði herinn til sín völdin í fyrradag en talið er að það hafi verið í tólfta sinn sem hann gerði það frá því árið 1932. Thaksin Shinawatra, bróður Yingluck, var að sama skapi steypt af stóli í valdaráni hersins árið 2006.

Ekki er enn vitað hversu margir embættismenn hafa verið handteknir í aðgerðum hersins, en að minnsta kosti 155 þjóðþekktum einstaklingum hefur verið bannað að yfirgefa landið án heimildar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert