Slá hernaðaraðstoð til Taílands á frest

Taílenskir hermenn.
Taílenskir hermenn. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að fresta því að veita Taílendingum 3,5 milljónir Bandaríkjadala, sem jafngildir um 397 milljónum króna, í hernaðaraðstoð eftir að herinn þar í landi hrifsaði til sín völdin í fyrradag.

Marie Harf, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði á blaðamannafundi í dag að bandarísk stjórnvöld væru einnig að endurskoða alla aðra aðstoð sína við landið.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur áður fordæmt valdarán taílenska hersins en hann segir að það sé ekki á nokkurn hátt réttlætanlegt. Það muni jafnframt hafa mjög slæm áhrif á samband Bandaríkjanna og Taílands.

Kerry hefur hvatt til þess að komið verði á fót borgaralegri ríkisstjórn í landinu, fjölmiðlafrelsi verði virt og að boðað verði til kosninga þar sem vilji fólksins muni ráða niðurstöðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert