Yfirgáfu barn með Downs-heilkenni

Gammy, barnið sem foreldrarnir yfirgáfu.
Gammy, barnið sem foreldrarnir yfirgáfu. Mynd af styrktarsíðu Hope for Gammy

Heimildin til staðgöngumæðrunar í Ástralíu hefur verið til umræðu undanfarið eftir að áströlsk hjón yfirgáfu barn þeirra sem fæddist með Downs-heilkenni. Taílensk staðgöngumóðir gekk með barnið sem fæddist í desember.

Hjónin tóku við tvíburasystur drengsins en neituðu að taka við honum. Hin 21 árs gamla Pattaramon Chanbua gekk með tvíburana og segir hún stofuna sem sá um að koma staðgöngumeðgöngunni á, hafa sagt henni að fjölskyldan gæti ekki eignast börn.

Hún fékk 14.900 bandaríkjadali, eða um 1,7 milljón íslenskra króna, fyrir að ganga með börnin en upphæðina sagði hún nægja til þess að borga fyrir menntun tveggja barna sinna auk þess greiða skuldir.

Nú þarf hún hins vegar að sjá um drenginn sem foreldrarnir vildu ekki og á ekki efni á greiða þá sjúkrareikninga sem honum fylgja. „Ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég valdi að eiga hann. Ég elska hann, ég gekk með hann í níu mánuði,“ sagði hún í viðtali við AFP.

Fjölmargir hafa þó lagt þeim lið í kjölfar fregna af málinu og var styrktarsíða stofnuð í síðustu viku. Forsætisráðherra Ástralíu, Tony Abbott, tjáði sig um málið og sagði það einstaklega sorglegt. „Ætli þetta sýni ekki ókostina við þennan bransa,“ sagði hann við blaðamenn.

Í dag hafa um 140 þúsund bandaríkjadalir, eða um sextán milljónir íslenskra króna, safnast í gegnum vefsíðuna Hope for Gammy.

mbl.is