Ástralar sækja til Taílands

Gammy ásamt staðgöngumóðurinni Patt­aramon Chan­bua.
Gammy ásamt staðgöngumóðurinni Patt­aramon Chan­bua. AFP

Mál Gammy litla, sem var fæddur af staðgöngumóður í Taílandi seint á síðasta ári, hefur skapað mikla umræðu í Ástralíu um staðgöngumæðrun og siðfræðilegar og lögfræðilegar undirstöður hennar. Staðgöngumóðir Gammy, Pattaramon Chanuba, heldur því fram að ástralskir foreldrar Gammy hafi neitað að taka við honum og aðeins tekið tvíburasystur hans til Ástralíu, þar sem Gammy fæddist með Downs-heilkennið. 

Í samtali við AFP sagði Pattaramon að hún hefði samþykkt að ganga með börnin og fengið 14.900 Bandaríkjadali eða um 1,7 milljónir íslenskra króna fyrir. Egg úr annarri taílenskri konu var frjóvgað af ástralska manninum og því komið fyrir í legi Pattaramon. 

Selja frjóvguð egg á svörtum markaði

Taílensk yfirvöld telja nú að staðgöngumæðrun í landinu sé orðin of stór iðnaður sem haldist heldur ekki í hendur við siðferðilegar hefðir í landinu. 

Samkvæmt fréttastofunni ABC  eru frjóvguð egg oft seld ólöglega í Taílandi. Einnig er oft illa farið með staðgöngumæður, þeim ekki rétt borgað og þau börn sem foreldrarnir vilja ekki, rétt eins og Gammy á að hafa verið, eru skilin eftir. 

Fulltrúi taílenskra heilbrigðisyfirvalda, Dr. Tares Krassanairawiwong, segir í samtali við ABC að þegar það kemur að staðgöngumæðrun er óljóst hvað er löglegt og hvað ekki. 

„Mér skilst að það sé fólk þarna úti sem skilur ekki lögin í Taílandi og misnotar þau. Í kjölfarið bitnar það bæði á staðgöngumæðrunum og foreldrunum.“

Taílensk yfirvöld hafa nú hafið herferð til þess að fækka staðgöngumæðrun í landinu og muni aðeins leyfa giftum pörum að notfæra sér hana og þá aðeins með staðgöngumóður sem er skyld þeim á einhvern hátt. 

„Hún er hluti af fjölskyldunni“

Fjölmargir Ástralar hafa nýtt sér þann möguleika að fara til Taílands til þess að nálgast staðgöngumæður. Staðgöngumæðrun er lögleg í Ástralíu en undir ströngum skilyrðum.

Þeir Adam og Dale frá Melbourne eignuðust dóttur í Taílandi fyrir fimm vikum síðan. „Þetta hefur algjörlega breytt lífi okkar,“ segir Adam. „Mér finnst að fólk ætti að fá tækifæri til þess að gera þetta. Það væri samt frábært ef það væru aðrir möguleikar fyrir okkur. Það hefði einnig verið frábært að geta gert þetta í Ástralíu.“

Adam og Dale höfðu rætt um að eignast börn saman í sex til sjö ár áður en þeir létu til skarar skríða. Notast var við fósturvísi úr ástralski vinkonu þeirra og fengin taílensk staðgöngumóðir. Að sögn Adams voru þeir í nánu sambandi við staðgöngumóðurina alla meðgönguna og var það þeim mikilvægt. Þeir ætla jafnframt að halda sambandi við hana í framtíðinni. „Hún er núna hluti af fjölskyldunni. Hún er vinkona okkar, ekki bara staðgöngumóðir.“

Samkvæmt frétt ABC kostar staðgöngumæðrun í Taílandi um 30.000 Bandaríkjadollara eða tæpar 3,5 milljónir íslenskra króna. Staðgöngumóðirin fær rúmlega 800 þúsund af þeirri upphæð en afgangurinn fer í læknis- og frjóvgunarkostnað. 

Svartir sauðir í öllum iðnaði

Óhætt er að segja að markaðurinn fyrir staðgöngumæðrun í Taílandi fari vaxandi en á síðasta ári jókst aðsókn Ástrala í staðgöngumæðrun þar í landi um 500 prósent. Það er m.a. vegna þess að reglugerðir um staðgöngumæðrun í Indlandi hafa verið hertar undanfarin ár og gert því fólki erfiðara fyrir að nálgast staðgöngumæður þar. 

„Það eru svartir sauðir í öllum iðnaði og við kynntum okkur þetta mjög vel áður en við byrjuðum,“ segir Dale. „Við sáum til þess að vel yrði séð um staðgöngumóðurina og að hún fengi vel greitt fyrir. Staðgöngumæðrun getur einnig haft jákvæð áhrif á staðgöngumóðurina. Hún fær pening sem getur hjálpað henni við að skapa sér feril eða senda börnin sín í skóla.“

Adam og Dale eru þó sammála um það að strangari reglugerðir þurfi til þess að vernda alla aðila þegar það kemur að staðgöngumæðrun. „Ég vona að þessu verði ekki hætt en mér finnst að það ættu að vera reglugerðir innan Taílands sem vernda alla sem að málinu koma. Þá sértaklega staðgöngumæðurnar og börnin,“ bætir Adam við. 

Lítið sem Ástralar geta gert

Colin Barnett, fylkisstjóri Vestur-Ástralíu, segir að það sé lítið hægt að gera í sambandi við mál Gammy. Hann kallar málið þó „sorglegt“ og „truflandi“.

„Börnin fæddust í Taílandi og er þar af leiðandi fyrir utan ástralska lögsögu,“ sagði Barnett. „Staðgöngumæðrun getur átt sér stað í Vestur-Ástralíu en undir mjög ströngum skilyrðum og það er jafnframt ekki löglegt að greiða staðgöngumóðurinni.“

Barnett bætti við að mikilvægt væri að endurskoða lögin sem kæmu að staðgöngumæðrun. „Það á að skoða þau en ég held að það sé mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, fyrir okkur að stjórna hvað gerist í öðru landi en Ástralíu.“

mbl.is