Börnum ruglað á fæðingardeildinni

Manon Serrano og Sophie Serrano
Manon Serrano og Sophie Serrano AFP

Tvenn frönsk hjón veltu því oft fyrir sér í gegnum tíðina hvort þau hefðu fengið rétt barn á fæðingardeildinni. Lífsýnarannsókn leiddi í ljós að ótti þeirra reyndist á rökum reistur. 

Foreldrarnir ásamt dætrum sínum, sem eru orðnar tvítugar, eru nú fyrir rétti í Grasse þar sem tekið er fyrir skaðabótamál sem þau höfðuðu gegn læknum og sjúkrahúsinu. Fara þau fram á rúmar 12 milljónir evra í miskabætur.

Í júlí 1994 eignaðist Sophie Serrano dótturina Manon á sjúkrahúsi skammt frá Grasse. Litla stúlkan var með gulu og því settu læknar hana í hitakassa með ljósum ásamt annarri nýfæddri stúlku til þess að lækna þær af gulunni. 

Fyrir mistök víxlaði hjúkrunarfræðingur stúlkunum og þrátt fyrir að báðar mæðurnar hefðu efasemdir um að þær ættu viðkomandi dóttur voru þær sendar heim með stúlkurnar. Gilti einu þótt þær bentu á að hársídd hvors barns passaði ekki við barnið áður en það fór í hitakassann.

Tíu árum síðar ákvað faðir Manon, sem undraðist mjög að dóttir hans líktist honum ekki á nokkurn hátt, að fara í faðernispróf sem leiddi í ljós að hann var ekki faðir hennar.

Í kjölfarið kom í ljós að Sophie Serrano var ekki móðir Manon og því ákváðu þau að fara á stúfana og leita uppi hina fjölskylduna sem hafði farið heim með dóttur þeirra.

Rannsókn leiddi í ljós að á þessum tíma fæddust þrjú börn á sjúkrahúsinu, tvær stúlkur og einn piltur, sem þurftu á ljósameðferð að halda vegna gulu. Þar sem það voru aðeins til tveir hitakassar voru stúlkurnar settar saman í hitakasa.

Það eru því tíu ár síðan foreldrarnir hittu líffræðilegar dætur sínar í fyrsta sinn frá því þær voru á fæðingardeildinni. Ekki kom til greina að skipta á börnum á þeim tíma. Fjölskyldurnar eru nú saman í skaðabótamáli gegn sjúkrahúsinu en réttarhaldið fer fram fyrir luktum dyrum.

Sophie og Manon Serrano
Sophie og Manon Serrano AFP
Manon Serrano og Sophie Serrano
Manon Serrano og Sophie Serrano AFP
Manon Serrano Sophie Serrano
Manon Serrano Sophie Serrano AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert