Vill sameiginlega ríkisstjórn evruríkjanna

Francois Hollande Frakklandsforseti.
Francois Hollande Frakklandsforseti. AFP

Francois Hollande Frakklandsforseti telur að þau ríki Evrópusambandsins sem noti evruna sem gjaldmiðil ættu að koma á laggirnar sameiginlegri ríkisstjórn sem og ríkissjóði sem lyti lýðræðislegu eftirliti af hálfu Evrópuþingsins.

Þetta kemur fram í grein sem Hollande ritaði í franska dagblaðið Le Journal du Dimanche um helgina í tilefni af 90 ára afmæli Jacques Delors, fyrrverandi forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Rifjaði forsetinn upp að Delors hefði á sínum tíma talað fyrir slíkum hugmyndum og hann vildi beita sér fyrir því að þær yrðu að veruleika.

Kallaði Hollande eftir meiri samruna þeirra ríkja sem mynduðu evrusvæðið til þess að takast á við aðsteðjandi vandamál. Lausnin væri ekki minni samruni. Sagði hann Frakkland reiðubúið að vera í forystuhlutverki í því að koma á slíkum breytingum á fyrirkomulagi evrusvæðisins.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph að Hollande virðist ekki hafa haft samráð um þessar hugmyndir við forystumenn annarra evruríkja. Fyrstu viðbrögð innanlands hafi verið neikvæð. Bent hafi verið á að önnur evruríki væru varla tilbúin í slíkan leiðangur.

mbl.is