Heimurinn betri með Saddam og Gaddafi

Muammar Gaddafi var við völd í Líbíu í meira en …
Muammar Gaddafi var við völd í Líbíu í meira en fjörutíu ár. AFP

Auðkýfingurinn Donald Trump heldur áfram að vekja á sér athygli með ögrandi ummælum í kosningabaráttu sinni í Repúblikanaflokknum vestanhafs. Nú segir hann að heimurinn væri betri staður ef einræðisherrarnir Saddam Hussein og Muammar Gaddafi væru enn á lífi.

Í viðtali við CNN sagði Trump að Mið-Austurlönd hefðu „sprungið í loft upp“ í tíð Baracks Obama forseta og Hillary Clinton, sem var utanríkisráðherra hans og er líklegasti frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum á næsta ári.

„100%,“ svaraði Trump þegar hann var spurður hvort að betur væri komið fyrir heimsbyggðinni ef Saddam og Gaddafi réðu enn ríkjum í Írak og Líbíu.

„Það er verið að afhöfða fólk. Það er verið að drekkja því. Þessa stundina hefur fólk það mun verr en undir Saddam eða Gaddafi,“ sagði Trump ennfremur.

Þannig hefði Írak orðið að „Harvard [háskóla] hryðjuverkanna“ þar sem hryðjuverkamenn fengju þjálfun.

„Ef þú lítur á Írak eins og það var fyrir einhverjum árum, ég er ekki að segja að hann [Saddam] hafi verið góður gaur. Hann var hræðilegur maður en það var betra en það er núna,“ sagði Trump sem lofaði því að sem forseti myndi hann styrkja herinn til þess að enginn þyrði að „abbast upp á“ Bandaríkin.

mbl.is

Bloggað um fréttina