Höfuðpaurinn féll í umsátrinu

Abdelhamid Abaaoud er sagður hafa fallið í umsátrinu.
Abdelhamid Abaaoud er sagður hafa fallið í umsátrinu. AFP

Teymi hryðjuverkamanna, sem lögreglan í París hafði hendur í hári eftir umsátur í morgun, bjó yfir fjölda vopna og var vel búið til árása.

Þetta sagði saksóknari Parísarborgar á blaðamannafundi sem hófst nú klukkan sjö.

„Rannsóknin eftir hryðjuverkin á föstudag hefur gengið vel, og árásin í nótt er sönnun þess. Hryðjuverkateymið var gert óvirkt og, eftir að hafa kynnst skipulagi þeirra og fjölda vopna, er ljóst að teymið var vel í stakk búið til árása. Við fundum heilt stríðsvopnabúr, með Kalashnikov rifflum, skotfærum og sprengjum.“

Washington Post hefur eftir heimildarmönnum sínum, tveimur háttsettum evrópskum leynilögreglumönnum, að meintur höfuðpaur á bak við árásirnar á föstudag hafi látist í umsátrinu í morgun.

Fundu farsíma í ruslatunnu

Saksóknarinn, Francois Molins, segir bifreiðarnar þrjár, sem leigðar voru af Abdeslam bræðrum, hafa nálgast skotmörk sín, „nánast eins og bílalest“.

Molins segir einnig að farsími hafi fundist í ruslatunnu bak við Bataclan tónleikahöllina. Úr honum hafi verið send skilaboðin: „Við erum komnir og erum að byrja“. Rannsakendur reyna nú að komast að því hver hafi tekið á móti skilaboðunum.

Íbúðin í St. Denis hverfinu, þar sem lögreglan réðst til atlögu seint í nótt, er talin hafa mögulega verið íverustaður Abu Oud, að sögn Molins. Vísar hann þar til meints höfuðpaurs á bak við árásir föstudagsins.

Misjafnt hefur verið eftir fjölmiðlum hvort notast sé við fullt nafn hins meinta höfuðpaurs eða að það sé skilmerkilega stytt í Abu Oud. Til skýringar skal árétt að um sama manninn er að ræða.

Skutu fimm þúsund skotum á lögreglu

„Rannsakendur voru leiddir til þessarar byggingar eftir að vísbendingar bárust um að Abu Oud væri innan landamæra Frakklands,“ segir Molins og bætir við að vitnisburðurinn hafi verið kannaður ítarlega áður en lögreglan hóf aðgerðir.

„Hryðjuverkamennirnir skutu fimm þúsund skotum,“ segir Molins um bardagann í morgun. Lögreglan náði að handtaka átta einstaklinga, en einn þeirra særðist á handlegg. Þá er einn þeirra kvenmaður. „Þeir hafa verið handteknir og verið er að kanna deili á þeim. Ég get ekki gefið frekari upplýsingar sem stendur.“

Þá sprengdi annar maður sig í loft upp. „Vegna þess hvernig líkamsleifum hans er ástatt höfum við ekki getað borið kennsl á hann.“

Misjafnt hefur verið eftir fjölmiðlum hvort notast sé við fullt nafn hins meinta höfuðpaurs eða að það sé skilmerkilega stytt í Abu Oud. Til skýringar skal árétt að um sama manninn er að ræða.

Uppfært að loknum blaðamannafundi, kl. 19.08

Molins sagði að enn sé hvorki hægt að bera kennsl á þá sem létust, en þeir eru sagðir vera að minnsta kosti tveir, né þá átta sem handteknir voru eftir umsátrið í St. Denis. Þá voru Abu Oud, höfuðpaurinn meinti, og Saleh Abdeslam, einn árásarmannanna á föstudag, ekki á meðal þeirra handteknu.

Af þeim sem voru handteknir, fundust tveir í rústum byggingarinnar, fjórir voru handteknir strax um leið og umsátrinu lauk, og maður og kona voru handtekin á götunni fyrir framan bygginguna, en maðurinn er grunaður um að hafa leyft hryðjuverkateyminu að nota íbúð sína.

Vísbendingar bárust lögreglu um að Abu Oud væri á svæðinu en athyglin beindist einnig að St. Denis vegna símahlerana og eftirlits lögreglu.

Lögreglan mætti í fyrstu sérstaklega styrktri hurð sem tafði framgang hennar. Þá gerðu sprengingarnar það að verkum að öryggi inni í íbúðinni er ekki að fullu tryggt vegna mögulegs hruns, sem tafið gæti fyrir rannsókninni.

Lögreglumenn í St. Denis hverfinu í morgun.
Lögreglumenn í St. Denis hverfinu í morgun. AFP
Molins talar á fundinum.
Molins talar á fundinum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert