Aftakan stríðsyfirlýsing gegn sjítum

Írakar mótmæltu aftöku Nimr al-Nimr í dag.
Írakar mótmæltu aftöku Nimr al-Nimr í dag. AFP

Stjórnmála- og trúarleiðtogar í Írak hafa harðlega gagnrýnt aftöku sjítaklerksins Nimr al-Nimrs í dag en hann var tekinn af lífi í Sádi-Arabíu í gærmorgun. Saka þeir yfirvöld í Sádi-Arabíu fyrir að hafa ráðist viljandi á samfélag sjíta um allan heim.

Helsti sjítaklerkur Íraks, Ayatollah Ali al-Sistani sagði í dag að aftaka al-Nimr sé tákn fyrir yfirgang og óréttlæti.

Alls voru 47 teknir af lífi í Sádi-Arabíu í gær. Að sögn innanríkisráðuneytis Sádi-Arabíu voru flestir fanganna tengdir hryðjuverkasamtökunum Al-Qaeda.

Moqtada al-Sadr, þekktur sjítaklerkur í Írak sem leiðir Saraya al-Salam varaliðið sagði aftöku Nimr „hræðilega árás“ gegn sjítum og kallaði eftir því að hún yrði fordæmd um allan heim. Annar sjítaklerkur, Mohammed Taqi al-Mudaresi, var þó harðorðari og sagði aftökuna stríðsyfirlýsingu, ekki aðeins gegn sjítum heldur öllum múslímum.

Utanríkisráðuneyti Íraks fordæmdi einnig aftökuna í yfirlýsingu og sakaði Sádi-Araba um að nota baráttuna gegn hryðjuverkum til að þagga niður í andstæðingum sínum.

Samkvæmt frétt AFP söfnuðust nokkrir hópar fólks saman í Bagdad og öðrum borgum Íraks til að mótmæla aftökunum. Þá var einnig mótmælt í Palestínu.

Aftökurnar vöktu líka reiði í Íran þar sem fjöldi fólks kveikti í sendiráði Sádi Arabíu í Tehran í gærkvöldi. Í Bahrain var einnig mótmælt en þar lentu mótmælendum og lögreglu saman.

Fjölmargir hafa krafist þess að sendiráði Sádi-Arabíu í Írak verði lokað og sendinefndin send heim. Aðeins eru tæpar þrjár vikur síðan að sendiráð þeirra í Bagadad var opnað að nýju, 25 árum eftir að því var lokað vegna innrásarinnar í Kúveit.

Mótmælt fyrir utan sendiráð Sádi-Arabíu í Ankara, höfuðborg Tyrklands.
Mótmælt fyrir utan sendiráð Sádi-Arabíu í Ankara, höfuðborg Tyrklands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert