Segir af sér vegna tölvupóstanna

Debbie Wasserman Schultz sagði af sér sem formaður flokksstjórnar í …
Debbie Wasserman Schultz sagði af sér sem formaður flokksstjórnar í kvöld. AFP

Formaður flokksstjórnar Demókrataflokksins sagði af sér nú í kvöld, tveimur dögum eftir að þúsundir tölvupósta flokksmanna láku og á öðrum degi landsfundar demókrata þar sem Hillary Clinton verður tilnefnd sem frambjóðandi flokksins til forseta Bandaríkjanna.

Fulltrúardeildarþingmaðurinn Debbie Wasserman Schultz frá Flórída tilkynnti um ákvörðun sína aðeins fáeinum klukkutímum eftir að Bernie Sanders, sem lengi hafði sakað hana um hlutdrægni meðan á kosningabaráttu hans við Clinton stóð, endurtók ákall sitt eftir afsögn hennar.

„Ég hef verið stolt af því að vera fyrsta konan sem tilnefnd er af sitjandi forseta til formennsku flokksstjórnar Demókrataflokksins,“ sagði Wasserman í yfirlýsingu sinni. „Ég gæti ekki verið meira spennt yfir því að demókratar eru að tilnefna fyrsta kvenkyns forsetaframbjóðandann okkar, Hillary Clinton, vin sem ég hef alltaf haft trú á og veit að verður frábær forseti.“

Hillary Clinton gæti grætt á afsögn formannsins.
Hillary Clinton gæti grætt á afsögn formannsins. AFP

Barack Obama þakkaði Wasserman Schultz fyrir fimm ára vinnuframlag hennar í yfirlýsingu vegna málsins. „Síðustu átta árin hefur formaðurinn Debbie Wasserman Schultz staðið þétt við bakið á mér. Ég hringi í hana í dag til að láta hana vita af þakklæti mínu.“

Hann sagði Wasserman Schultz hafa þjappað demókrötum saman, ekki bara fyrir seinni kosningaherferð hans, heldur til þess að ná þeim sameiginlegu markmiðum sem flokkurinn hefur fyrir Bandaríkin.

Clinton þakkaði henni einnig og tilkynnti að hún yrði heiðursformaður kosningaherferðar sinnar. Fyrrum starfsmaður flokksstjórnarinnar benti Guardian þó á að afsögn Wasserman Schultz gæti verið Clinton til heilla. Nú hafi hún tækifærið til að tilnefna nýjan aðila í hlutverkið, hugsanlega úr hópi þeirra sem hún leit til þegar kom að varaforsetaefni, sem muni gagnast framboði hennar betur á síðustu mánuðum kosningabaráttunnar.

Wikileaks birti tölvupóstana þar sem meðal annars mátti lesa samræður starfsfólks flokksstjórnarinnar um hvernig mætti grafa undan herferð Sanders gegn Clinton. Í einum tölvupóstinum leggur fjármálastjóri flokksins, Brad Marshall, til að sett sé spurningarmerki við trúarbrögð Sanders og skrifar „Ég held að ég hafi lesið að hann sé trúleysingi“.

Í öðrum pósti leggur starfsmaður til að flokksstjórnin dreifi neikvæðri grein um stuðningsmenn Sanders.

Bernie Sanders hafði lengi sakað flokksstjórnina um hlutdrægni.
Bernie Sanders hafði lengi sakað flokksstjórnina um hlutdrægni. AFP

Sanders hafði sakað Wasserman Schultz og flokksstjórnina um hlutdrægni mánuðum saman og fór jafnvel í mál við flokksstjórnina fyrir að hafa neitað honum um aðgengi að upplýsingum um kjósendur. Þá gaf hann í skyn að flokksstjórnin hafi skipulagt kappræður á undarlegum tímum þar sem fólk væri ólíklegra til að fylgjast með og heyra skilaboð Sanders sem var tiltölulega óþekktur fyrir kosningabaráttuna.

Flokksstjórnin segir rússneska tölvuþrjóta hafa brotist inn í tölvupóstkerfi flokksins og að útgáfa þeirra væri liður í að styðja Donald Trump.

mbl.is

Bloggað um fréttina