Hvaða blettir eru á bökum ÓL-keppenda?

Michael Phelps sem tryggði sér sitt 19. ólympíugull í gær, …
Michael Phelps sem tryggði sér sitt 19. ólympíugull í gær, er með ummerki eftir sogskálarnar á handleggjum og baki. AFP

Margir hafa eflaust tekið eftir því að á bökum nokkurra keppenda á Ólympíuleikunum í Ríó, sérstaklega þeirra frá Bandaríkjunum, eru áberandi rauðir blettir. Einn þeirra sem er með áberandi hringi á bakinu er bandaríski sundmaðurinn Michael Phelps.

En hvað í ósköpunum er þetta eiginlega?

Blettirnir koma í ljós eftir meðferð sem kallast „cupping“ á ensku en í henni eru sogskálar settar á líkama fólks, aðallega bak, og á það að auka blóðflæði. Stjörnur á borð við Gwyneth Paltrow og Jennifer Aniston eru meðal þeirra sem reglulega gangast undir meðferðina.

Litlar skálar eða bollar eru settir á bak fólks og kveikt er í eldfimum vökva inni í skálunum. Sog myndast og tog verður á húðinni. Því myndast rauðu blettirnir. 

Sjá nánar: Hvað er „cupping“?

Aðferðin vakti fyrst athygli á ÓL í Peking árið 2008 er einn kínverskur sundmaður var útataður í blettunum og fjölmiðlar fóru að forvitnast um skýringuna. 

Blettirnir virðast eins og marblettir en þó segja þeir sem reynt hafa meðferðina að hún sé með öllu sársaukalaus.

Meðferðin er umdeild. Sumir segja hana gagnast við að auka blóðflæði en aðrir segja hana með öllu gagnslausa. 

Hér sjást blettirnir vel á baki bandaríska sundmannsins Michaels Phelps …
Hér sjást blettirnir vel á baki bandaríska sundmannsins Michaels Phelps á leikunum í Ríó. AFP

Frétt Independent um málið.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert