Réðst á fólk með hnífi

AFP

Karlmaður réðst á fólk með hnífi í verslanamiðstöð í borginni St. Cloud í Minnesota-ríki í Bandaríkjunum í gærkvöld og særði átta manns. Maðurinn var að lokum skotinn til bana af lögreglumanni á frívakt samkvæmt frétt AFP.

Haft er eftir Blair Anderson, lögreglustjóra í St. Cloud, að árásarmaðurinn hafi „skírskotað til Allah“ þegar árásin var gerð. Maðurinn hafi spurt alla vega eitt af fórnarlömbunum að því hvort viðkomandi væri múslimi áður en hann réðst á það.

Anderson lagði engu að síður áherslu á að ekki lægi endanlega fyrir hvert tilefni árásarinnar hafi verið. Hvort um hryðjuverk hafi verið að ræða ræða ekki. Maðurinn klæddist einkennisbúningi öryggisvarðar og var vopnaður að minnsta kosti einum hnífi.

Þeir sem fyrir árásinni urðu voru fluttir á sjúkrahús. Einn er alvarlega særður. Maðurinn átti sögu að baki vegna umferðarlagabrota að sögn Andersons. Verslanamiðstöðinni hefur verið lokað á meðan lögregla sinnir vettvangsrannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert