Ætlar að sleppa afmæliskökunni

Emma Morano er talin vera elsta núlifandi manneskja heims og ...
Emma Morano er talin vera elsta núlifandi manneskja heims og eina núlifandi manneskjan sem fæddist á 19. öld. AFP

Ítalska konan Emma Morano er 117 ára í dag og er því elst kvenna í heiminum. Hún er sú eina sem vitað er um í heiminum sem er fædd á nítjándu öldinni.

Morano er fædd 29. nóvember 1899 og segir hún lykilinn að háum aldri vera það að hún hafi sneitt hjá hefðbundnum lyfjum.

„Ég borða tvö egg á dag og læt það nægja. Eins kex. Ég borða hins vegar ekki mikið því ég er tannlaus,“ sagði hún í viðtali við AFP-fréttastofuna í síðasta mánuði. Viðtalið var tekið á heimili hennar í Verbania, bæ á Norður-Ítalíu skammt frá Maggiore-vatni. Á borðinu í herberginu hennar er vitnisburður Guinness-heimsmetabókarinnar um að Morano sé elsta konan í heiminum.

Hún er elst átta systkina og sú eina sem enn er á lífi. Hún skilur vel athyglina sem hún fær vegna aldursins. Fólk komi alls staðar að til þess að koma og hitta hana. Hún efast um að borða bita af afmæliskökunni í ár því síðast þegar hún gerði það fékk hún í magann.

Morano er afar sjálfstæð kona. Hún yfirgaf eiginmanninn árið 1938 en hann beitti hana ofbeldi. Þetta var skömmu eftir að hún missti son sinn, sitt eina barn. Eftir það bjó hún alltaf ein og starfaði í verksmiðju.

Það var ekki fyrr en í fyrra sem hún gaf sjálfstæðið upp á bátinn og fór að fá aðstoð allan sólarhringinn. Hún hafði hins vegar ekki yfirgefið íbúð sína í 20 ár og er núna búin að vera rúmliggjandi í tæpt ár. Þrátt fyrir að andlega sé hún heil þá eru heyrnin og sjónin döpur og hún á erfitt með að tjá sig. 

mbl.is

Bloggað um fréttina