Vernda þær fyrir eigin hormónum

AFP

Indverskur ráðherra segir að það verði að banna kvenháskólanemum að fara út á kvöldin til þess að verja þær fyrir eigin hormónaflæði. Ummæli ráðherrans hafa vakið harða gagnrýni á samfélagsmiðlum.

Við marga indverska háskóla er konum sem eru við nám bannað að fara út á kvöldin á meðan karlkyns nemendur mega leika lausum hala. Þessi stefna er harðlega gagnrýnd af mörgum enda þykir hún gamaldags karlremba. 

Manekha Gandhi.
Manekha Gandhi. Wikipedia/ Abhi

Manekha Gandhi, sem fer með mál kvenna og barna í ríkisstjórn Indlands, var í gærkvöldi spurð út í þetta í spjallþætti í sjónvarpi. Hún svaraði því til að þetta væri nauðsynlegt til þess að verja ungar konur fyrir þeirra eigin hormónaflæði. Slíkt útgöngubann sé þeim til hagsbóta og varnar. Um var að ræða sérstaka umræðu í sjónvarpi í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars.

Gandhi segir að setja eigi svipaðar reglur fyrir karlkynsnemendur, í varnarskyni fyrir þá og aðra. Viðbrögðin létu ekki á sér standa á samfélagsmiðlum og var meðal annars bent á hvort það væri bara ekki einfaldast að læsa ungt fólk inni – því sjálfu til varnar.

Gandhi er ekki óvön því að ummæli hennar falli í grýttan jarðveg en í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna í fyrra sagði hún ekki hægt að banna með lögum nauðganir í hjónaböndum þar sem hjónabandið væri friðhelgt. Eins að banna ætti fólki sem er með geðklofa að vinna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka