Prestur handtekinn fyrir morð og nauðgun

Lögreglan á Indlandi. Mynd úr safni.
Lögreglan á Indlandi. Mynd úr safni. AFP

Hindúa prestur og tveir karlkyns fylgjendur hans hafa verið handteknir í Uttar Pardesh fylki á Indlandi. Mennirnir eru sakaðir um að hafa hópnauðgað og myrt 50 ára gamla konu. 

Presturinn var handtekinn á fimmtudagskvöld fyrir nauðgun og morð, sem átti sér stað í musteri í Baudaun héraði á sunnudag. Fylgjendur hans tveir voru handteknir á miðvikudag, að sögn Kumar Prashant, talsmanns lögreglu. 

„Fórnalambið hafði farið í musteri í nálægu þorpi þar sem meint nauðgun átti sér stað,“ segir Prashant við CNN og bætir við að mennirnir þrír skyldu lík fórnalambsins eftir fyrir utan heimili hennar í kringum miðnætti á sunnudag. „Fjölskylda hennar fór oft í musterið svo hinir grunuðu vissu hvar heimili hennar var.“

Mennirnir þrír fullyrða að konan hafi fallið niður í brunn og að þeir hafi hjálpað henni upp úr honum og síðan skilið hana eftir fyrir utan heimili hennar á lífi. Fjölskylda konunnar segir að hún hafi verið látin þegar hún fannst. 

Við krufningu kom í ljós að konan hafi látist af völdum innvortis blæðingar. Hún hafi verið með brotin rifbein og skurði á kynfærum. 

Mennirnir hafa allir verið sakaðir um hópnauðgun og morð, en hámarksrefsing fyrir morð er dauðarefsing og lífstíðarfangelsi fyrir hópnauðgun. 

Yfir 32.000 tilfelli nauðgunar voru tilkynnt til lögreglunnar á Indlandi árið 2019, en talið er að sú tala endurspegli einungis brot af rauntölu. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert