Mótmæla nauðgun á níu ára stúlku

Frá mótmælum gegn nauðgunum í Nýju-Delí árið 2012.
Frá mótmælum gegn nauðgunum í Nýju-Delí árið 2012. AFP

Þriðja daginn í röð mótmæltu hundruð manna á götum Nýju-Delí. Ástæða mótmælanna er meint nauðgun og morð á níu ára gamalli indverskri stúlku sem tilheyrði Dalit-stéttinni, lægstu stétt Indlands.

Mótmælunum er ætlað að vekja athygli á hárri tíðni kynferðisofbeldis í Indlandi. Á skiltum mótmælenda mátti lesa: „Veitið stúlkunni réttlæti“ og kröfðust mótmælendur þess að mennirnir fjórir, sem hafa verið sakaðir um glæpinn, yrðu dæmdir til dauða.  

Æðsti ráðherra Nýju-Delí, Arvind Kerjriwal, tísti að árásin hefði verið bæði barbarísk og skammarleg en sagði að engin ástæða væri til að bæta lög og reglur í Nýju-Delí.

Mótmæli í Nýju-Delí.
Mótmæli í Nýju-Delí. AFP

Fjölskylda stúlkunnar sagði fjölmiðlum á staðnum að lík stúlkunnar hefði verið brennt án þeirra samþykkis og hún óttaðist að prestur ásamt þremur starfsmönnum líkbrennslunnar hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi. Stúlkan hafði farið að líkbrennslunni til að sækja vatn.

Mennirnir fjórir munu hafa sagt móðurinni að koma í líkbrennsluna og sögðu henni að stúlkan hefði fengið rafstuð. Að sögn lögreglustjóra í Nýju-Delí mun móðurinni hafa verið sagt að ef hún tilkynnti andlátið til lögreglunnar myndu læknar sem framkvæmdu krufninguna fjarlægja líffæri hennar og selja þau. Stúlkan var í kjölfarið brennd.

Lögreglan handtók síðar mennina fjóra sem hafa nú verið ákærðir fyrir nauðgun og morð á stúlkunni.

Að meðaltali voru 90 nauðganir á stúlkum og konum á Indlandi tilkynntar til lögreglu dag hvern árið 2019. Talið er að stór hluti kynferðisofbeldis þar í landi sé aldrei tilkynntur.

Frétt á vef The Guardian. 

mbl.is