Netflix og Cannes í hár saman

Undirbúningur stendur yfir fyrir kvikmyndahátíðina í Cannes.
Undirbúningur stendur yfir fyrir kvikmyndahátíðina í Cannes. AFP

Einn framkvæmdastjóra Netflix hefur hvatt kvikmyndahátíðir til að „breytast“ og fagna kvikmyndum óháð því fyrir hvaða miðla þær eru framleiddar. Tilefnið er erjur Netflix og kvikmyndahátíðarinnar í Cannes um dreifingu.

Tvær myndir streymiþjónustunnar eru meðal þeirra mynda sem keppa um Gullpálmann en vandamálið snýst um þá hefð Netflix að setja myndir í sýningu á netinu á sama tíma og þær eru sýndar í kvikmyndahúsum.

Samkvæmt frönskum lögum má ekki streyma kvikmyndum á netinu fyrr en þremur árum eftir að þær fara í almenna sýningu í kvikmyndahúsum og vegna þessa neitaði Netflix að sýna myndirnar tvær í bíóhúsum í Frakklandi.

Ákvörðun Netflix reitti franska kvikmyndahúsaeigendur til reiði, sem neyddi skipuleggjendur Cannes-hátíðarinnar til að banna afurðir Netflix til frambúðar.

Ted Sarandos, einn framkvæmdastjóra Netflix, segir hins vegar að stjórnendur Cannes eigi að standa við markmið sitt og „fagna listum“ óháð því fyrir hvaða miðla verkin séu framleidd.

„Sögulega þá ná margar myndir inn í Cannes án þess að hafa samið um dreifingu,“ sagði Sarandos á blaðamannafundi í Seúl, þar sem hann var að kynna kvikmyndina Okja fyrir frumsýningu myndarinnar í Cannes.

Samkvæmt fyrrnefndri reglubreytingu verður að sýna allar myndir sem keppa í Cannes í frönskum kvikmyndahúsum að hátíðinni lokinni. Sarandos segir kvikmyndahátíðir hins vegar þurfa að aðlagast breyttum aðstæðum.

„Áhorfendahópurinn er að breytast, og því breytist dreifingin, og því verða kvikmyndahátíðirnar líklega að breytast.“

Netflix hefur hvatt sjónvarpsstöðvarnar til naflaskoðunar og kvikmyndahátíðirnar eru næstar.
Netflix hefur hvatt sjónvarpsstöðvarnar til naflaskoðunar og kvikmyndahátíðirnar eru næstar. AFP
mbl.is