Aukið fylgi þrátt fyrir vantraust

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven.
Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven. AFP

Fylgi þjóðernisflokksins Svíþjóðardemókratar dregst saman um 3,5% í nýrri skoðanakönnun og fellur flokkurinn úr öðru sæti yfir stjórnmálaflokka sem njóta mest fylgis í Svíþjóð í það þriðja. Flokkurinn fengi 16,6% atkvæða ef gengið yrði til þingkosninga nú segir í könnun sem birt er í Expressen og unnin af Demoskops.

Hægriflokkurinn Moderaterna er með 17,2% sem er aukning um 1,5% og Jafnaðarmannaflokkurinn er með 28,4% fylgi, sem er aukning um 1,4% frá síðustu könnun. Græningjar, sem einnig sitja í ríkisstjórn með jafnaðarmönnum er með 4,4%. Tveir ráðherrar í minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins létu af embætti í lok júlí eftir að stjórnarandstaðan lagði fram vantrauststillögu gegn þeim og varnarmálaráðherranum Peter Hultquist Ráðherrarnir tveir sögðu af sér vegna frétta um að tæknimenn fyrirtækja í öðrum löndum hefðu haft aðgang að tölvugögnum um milljónir Svía og sænskum ríkisleyndarmálum.

Fjórir borgaralegir flokkar ákváðu í júlí að leggja fram vantrauststillöguna gegn ráðherrunum þremur með stuðningi þjóðernisflokksins Svíþjóðardemókratanna. Borgaralegu flokkarnir fjórir – Hægriflokkurinn (Moderatarna), Miðflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn og Kristilegir demókratar – sögðust vera tilbúnir að mynda nýja ríkisstjórn. Anni Lööf, leiðtogi Miðflokksins, hefur þó sagt að ekki komi til greina að mynda stjórn með Svíþjóðardemókrötunum.

Frétt Expressen 

mbl.is