Markle fetar í fótspor Grace Kelly

Bandaríska leikkonan Meghan Markle æfir sig að veifa fyrir stóra …
Bandaríska leikkonan Meghan Markle æfir sig að veifa fyrir stóra hlutverkið: Hún mun giftast Harry Bretaprins. AFP

Meghan Markle, unnusta Harrys Bretaprins, segir að leiklistin víki nú og er hún þannig að feta í fótspor Grace Kelly sem yfirgaf Hollywood fyrir fullt og allt og giftist furstanum af Mónakó.

Markle er þekktust fyrir hlutverk sitt í lögfræðiþáttunum Suits. Þar hefur hún farið með hlutverk síðan árið 2011. Í haust kom upp orðrómur um að hún ætlaði að hætta að leika í þeim og fylgdi sögunni að það væri vegna ástarsambands hennar við prinsinn. 

Í gær tilkynnti parið svo um trúlofun sína. Þau ætla að giftast í vor.

Markle, sem er 36 ára, staðfesti í viðtali við BBC að hún myndi hætta að leika og þess í stað einbeita sér að málstað sem er henni mikilvægur en hún hefur lengi sinnt margvíslegum góðgerðarmálum. „Ég sé þetta ekki þannig að ég sé að gefa eitthvað upp á bátinn. Ég sé þetta sem breytingu. Þetta er nýr kafli.“

Innilega ástfangin: Harry og Meghan tilkynntu um trúlofun sína í …
Innilega ástfangin: Harry og Meghan tilkynntu um trúlofun sína í gær. AFP

Fyrir 62 árum yfirgaf stórstjarnan Grace Kelly Hollywood og elti ástina alla leið til Mónakó þar sem hún giftist furstanum Rainer III.

Jeetendr Sehdev, sérfræðingur í málefnum Hollywood, bendir á að Markle sé ekki nánda nærri jafn fræg leikkona og Kelly var en hún hlaut m.a. Óskarsverðlaun á sjötta áratugnum.

„Bandaríkjamenn sem hafa heyrt Meghan getið munu minnast hennar sem sjónvarpsleikkonu frekar en stjörnu í Hollywood,“ segir Sehdev í samtali við AFP-fréttastofuna. Hann bætir við að Markle verði fyrsti meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar sem sé af svörtu fólki komin (móðir hennar er svört) og það gæti orðið til þess að hvetja sjónvarpsframleiðendur þar í landi til að láta leikara sem ekki eru hvítir fá fleiri hlutverk.

„MeghanMarkle er tákn nútíma prinsessunnar og það ætti ekki að vera nein ástæða til þess að hún hætti að leika í sjónvarpi eftir að hún giftist. Höllin mun líklega vilja hafa eitthvað um val hennar á hlutverkum að gera.“

Meghan Markle í hlutverki sínu í sjónvarpsþáttunum Suits.
Meghan Markle í hlutverki sínu í sjónvarpsþáttunum Suits.

 Catriona Harve-Jenner, fréttaritari breska Cosmopolitan er á öndverðum meiði og segir að Markle hafi tekið rétta ákvörðun með því að hætta að leika. „Að vera hluti af bresku konungsfjölskyldunni er full vinna og þeir sem henni tilheyra þurfa að vera talsmenn góðgerðarmála, koma fram fyrir hönd Bretlands á alþjóða vettvangi og halda í þær hefðir sem eru innan fjölskyldunnar. Myndi hún ráða við það með því að vera í fullri vinnu í þáttunum Suits?“

Markle er fyrsta bandaríska konan sem mun giftast inn í bresku konungsfjölskyldunnar frá því að Wallis Simpson var og hét. Hún mun ekki fá titilinn „prinsessa“. Sérfræðingar telja mun líklegra að hún og Harry fái titlana hertogaynja og hertogi rétt eins og Vilhjálmur og Katrín.

Markle hefur afrekað ýmislegt á sínum ferli fyrir utan að leika í sjónvarpsþáttunum Suits. Hún er frumkvöðull, aðgerðasinni og tískuhönnuður. Líklegt er talið að hún láti einnig af slíku þegar hún giftist Harry. Til marks um það hefur hún lokað bloggsíðu sinni The Tig þar sem hún skrifaði um lífsstíl.

SarikaBose, kennari við háskólann íBritishColumbia, segir að tímarnir hafi vissulega breyst frá því aðGraceKelly þurfti að velja á milli Hollywood og ástarinnar. Hún bendir hins vegar á að líklega sé það þó enn of frammúrstefnulegt fyrir bresku konungsfjölskylduna aðMarkle vinni fulla vinnu sem leikkona. „Þó að breskt samfélag og konungsfjölskyldan hafi breyst stórkostlega á síðustu áratugum þá eru enn líkur á því að fólk myndi setja samansem-merki milli þeirra hlutverka semMarkle tæki að sér og persónu hennar.“

Trúlofunarhringurinn.
Trúlofunarhringurinn. AFP

Bose segist eiga von á því að Markle feti í fótspor annarra í konungsfjölskyldunni og einbeiti sér að góðgerðarmálum. „Löngu áður en hún kynntist Harry þá var hún að taka þátt í ýmsum slíkum verkefnum.“

Hún segir að slík verkefni hafi veitt henni góða reynslu. 

Móðir Markle er sem fyrr segir svört og faðir hennar af hollensku og írsku bergi brotinn. Foreldrar hennar skildu er Markle var sex ára. Hún ólst upp í Los Angeles og gekk þar í kaþólskan stúlknaskóla. 

Hún útskrifaðist frá Northwestern háskólanum árið 2003 og fór í kjölfarið að leika í sjónvarpi. 

Clarence Moye, ritstjóri Awards Daily, segir að Markle hafi mjög mikla útgeislun. Hann hafi orðið fyrir vonbrigðum að heyra að hún ætlaði að hætta að leika. „Það hefði verið gaman að sjá þessa nútímalegu konu halda áfram á leiklistarbrautinni... en nú virðist ljóst að hún mun ekki gera það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert