Flaugin gæti náð til Bandaríkjanna

Stjórnvöld í Norður-Kóreu segjast hafa verið að prófa nýja langdræga eldflaug í gær og að tilraunin hafi sannað að nú væri Bandaríkin í skotfæri frá landinu. Í yfirlýsingu sem lesin var í norðurkóreska ríkissjónvarpinu kom fram að nú væri Norður-Kórea orðið „fullgilt kjarnorkuveldi“.

Eldflaugin er sögð sú kraftmesta. Henni var skotið á loft í gærmorgun að staðartíma. Hún hafnaði svo í Japanshafi eftir að hafa flogið um 1.000 kílómetra leið á 53 mínútum og í allt að 4.475 kílómetra hæð. Í frétt BBC segir að flaugin hafi flogið hærra en nokkur önnur slík sem Norður-Kórea hefur skotið á loft. 

Um miðjan dag í gær var útsending ríkissjónvarpsins í Norður-Kóreu rofin til að færa þjóðinni þessar fregnir. 

Flauginni var ekki flogið yfir Japan eins og stundum hefur gerst áður heldur hafnaði hún í hafinu um 250 kílómetrum frá Japansströndum, að því er yfirvöld í Japan segja.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa áður haldið því fram að flugskeyti þeirra gætu hæft Bandaríkin. 

Í yfirlýsingu sem lesin var í norðurkóreska sjónvarpinu sagði að leiðtogi landsins, Kim Jong-un væri mjög stoltur af því að nú væri ríki hans loks orðið sannkallað kjarnorkuveldi. Því var bætt við að Norður-Kórea væri friðelskandi ríki og ábyrgðarfullt er kæmi að kjarnorku. Ætlaði ríkið sér að gera allt sem í þess valdi stæði til að verja frið og stöðugleika í heiminum.

Var tekið fram að engu ríki myndi stafa ógn af Norður-Kóreu svo lengi sem það gengi ekki nærri hagsmunum þess.

Gæti flogið til Bandaríkjanna

En er eitthvað til í þeim fullyrðingum að flaugin gæti í raun og veru náð að ströndum Bandaríkjanna? Í greiningu bandarískra samtaka vísindamanna kemur fram að skeytið hefði getað ferðast um 13.000 kílómetra leið og þar með náð til hvaða hluta Bandaríkjanna sem er. Hins vegar var því bætt við að skeytið hefði líklega ekki borið raunverulegan kjarnaodd, sum sé enga sprengju. Væri slík á flauginni væri flaugin ekki fær um að komast svo langa vegalengd.

Þetta gengur þvert á það sem Norður-Kóreumenn halda fram. Þeir segja að flaugin hlaðin sprengjuefni gæti náð ströndum Bandaríkjanna. 

Suðurkóreskur hermaður gengur fram hjá sjónvarpsskjá þar sem sjá má …
Suðurkóreskur hermaður gengur fram hjá sjónvarpsskjá þar sem sjá má einræðisherra Norður-Kóreu, Kim Jong-un, skrifa undir heimild til eldflaugarskotsins í gær. AFP
Íbúar í höfðuðborginni Pyongyang við lestarstöðina í borginni að fagna …
Íbúar í höfðuðborginni Pyongyang við lestarstöðina í borginni að fagna eldflaugaskotinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert