Segist saklaus

Sayfullah Habibullahevic Saipov er sakaður um að hafa ekið inn …
Sayfullah Habibullahevic Saipov er sakaður um að hafa ekið inn í mannfjölda á Manhattan í New York og drepið átta. AFP

Karlmaður sem sakaður er um að hafa drepið átta manns og sært tólf er hann ók á vegfarendur í New York í október segist saklaus. Hann var ákærður fyrir morð og hryðjuverk.

Sayfullo Saipov flutti til Bandaríkjanna frá Úsbekistan árið 2010. Hann kom fyrir dómara í gær þar sem hann lýsti yfir sakleysi sínu. Hann er m.a. sakaður um að styðja hryðjuverkasamtökin Ríki íslams. 

 Saipov var handtekinn skömmu eftir árásina á Manhattan þann 31. október.  Þetta var mannskæðasta árás sem framin hefur verið í borginni frá hryðjuverkunum 11. september árið 2001.

Miðað við þær sakir sem Saipov eru gefnar væri hægt að dæma hann til dauða en saksóknarar hafa ekki gefið upp hvort þeir muni fara fram á slíkt. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað kallað eftir því að Saipov verði dæmdur til dauða. 

Kertavaka í New York í kjölfar árásarinnar þar sem fórnarlambanna …
Kertavaka í New York í kjölfar árásarinnar þar sem fórnarlambanna var minnst. AFP

Skipaður verjandi Saipov lýsti yfir sakleysi hans fyrir hans hönd frammi fyrir dómara í gær. Saipov var skotinn af lögreglu skömmu eftir árásina og fluttur á sjúkrahús.  Í ákærunni sem gefin var út daginn eftir að ódæðið var framið kom fram að hann hefði ítrekað grobbað sig á því sem hann hafði gert er hann lá á sjúkrahúsinu. 

Við rannsókn lögreglu kom í ljós að Saipov hafi skipulagt árásina í um ár og að áróðursmyndbönd Ríkis íslams hefðu m.a. verið honum innblástur til árásanna. Er hann lá á sjúkrahúsinu bað hann um að fáni hryðjuverkasamtakanna yrði hengdur upp á sjúkrastofunni. Þá sagðist honum „líða vel“ með það sem hann hefði gert.

Mál hans verður næst tekið fyrir þann 23. janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert