Skipulagði árásina í heilt ár

Fólk hefur lagt blóm við hjólastíginn þar sem Saipov framdi …
Fólk hefur lagt blóm við hjólastíginn þar sem Saipov framdi ódæðið. AFP

Sayfullo Saipov, sem drap átta manns og særði 12 í hryðjuverkaárás í New York á þriðjudag, hefur sagt rannsakendum að hann hafi byrjað að skipuleggja árásina fyrir ári.

Saipov sagði að hann hefði ætlað sér að drepa eins marga og mögulegt væri og að hann „væri ánægður“ með árásina.

Hann hefur verið ákærður fyrir hryðjuverkið en Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur krafist dauðarefsingar. Dauðarefs­ing er ekki heim­iluð í New York-ríki þar sem Saipov framdi ódæðið. 

Saipov kom fyrir dómara í hjólastól sólarhring eftir ódæðið á hjóla- og göngu­stíg á Lower Man­hatt­an. Samkvæmt skjölum sem lögð hafa verið fram vegna málsins prófaði Saipov að leigja bíl fyrir mánuði og keyra sömu leið og hann gerði þegar hann framdi hryðjuverkið. Gerði hann það til að æfa sig.

Sa­yfullo Saipov.
Sa­yfullo Saipov. AFP

Hann ákvað að fremja ódæðið á hrekkjavöku vegna þess að hann vissi að þá yrði fleiri á ferli. Upphaflega ætlaði hann einnig að ráðast að fólki á Brooklyn-brúnni. Saipov hugðist hafa fána Ríkis íslams á bílnum en hætti við vegna þess að hann taldi að það myndi draga of mikla athygli að honum.

90 ofbeldisfull myndskeið fundust á síma hans, tengd Ríki íslams, en þau „veittu Saipov innblástur“.

Sam­kvæmt BBC sagði John Miller, aðstoðarlög­reglu­stjóri í New York, að svo virtist sem Saipov hefði fylgt nán­ast í öllu leiðbein­ing­um Rík­is íslams sem víga­sam­tök­in hafa birt á sam­fé­lags­miðlum. Hvernig eigi að fremja slík­ar árás­ir o.fl. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert