Hayek: „Weinstein var skrímslið mitt“

Leikkonan Salma Hayek fjallar um samskipti sín við bandarísk kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein í aðsendri grein sem birt er í New York Times í dag. Segir Hayek að árum saman hafi Weinstein verið skrímslið sitt.

Fjöldi kvenna hefur stigið fram nú í haust og greint frá kynferðislegri áreitni og misnotkun sem þær sættu af hálfu kvikmyndaframleiðandans, sem í kjölfarið var rekinn sem stjórnandi eigin framleiðslufyrirtækis.

Hayek segir í grein sinni að fjölmiðlar og fleiri, m.a. leikkonan Ashley Judd hafi komið að máli við hana í haust og beðið hana að fjalla um kynni sín af Weinstein. „Ég hafði heilaþvegið mig í að telja þessu vera lokið og að ég hefði lifað þetta af.  Ég faldi mig fyrir ábyrgðinni að segja frá með afsökunum um að nógu margir hefðu þegar beint kastljósinu að skrímslinu mínu. Ég taldi rödd mína ekki mikilvæga, né heldur taldi ég hana hafa eitthvað vægi.“

Raunveruleikinn hafi hins vegar verið sá að hún hafi verið að forðast að útskýra ýmislegt fyrir ástvinum sínum, m.a. hvernig sér hafi tekist að vera vingjarnleg til fjölda ára við mann sem særði sig svo illa. „Ég hef verið stolt af hæfni minni til að fyrirgefa, en staðreyndin var sú að ég skammaðist mín fyrir að lýsa smáatriðum þess sem ég hafði fyrirgefið og það fékk mig til að efast um að ég hefði raunverulega tekist á við þetta.“

Leikkonan Salma Hayek segir að fyrsta og eina taugaáfall sem ...
Leikkonan Salma Hayek segir að fyrsta og eina taugaáfall sem hún hafi fengið á ferli sínum hafi verið eftir að láta undan kröfum Harvey Weinstein. AFP

Hayek segist hafa þurft að takast á við eigin heigulshátt og viðurkenna að sín saga væri ekki síður mikilvæg en annarra kvenna. Að Weinstein hafi ítrekað sagt hana einskis verða hafi þó mögulega haft sín áhrif.

Á þeim 14 árum sem liðu frá því að hún kom sem skólastúlka í mexíkóskum sápuóperum og fékk aukahlutverk í nokkrum bandarískum myndum og þar til hún fékk stóra tækifærið í myndum á borð við Desperado og Fools Rush In hafi Harvey Weinstein verið orðinn einn af stórlöxunum og á þessum sama tíma hafi verið óhugsandi fyrir mexíkóska leikkonu að ætla að skapa sér nafn í Hollywood.  „Og þó að ég hefði sannað að þetta væri rangt hjá þeim, þá var ég samt einskis verð,“ skrifar Hayek.

Saga listakonunnar Fridu Kahlo hafi veitt sér innblástur og sig hafi langað til að segja sögu hennar. Leiðin til þess hafi verið í gegnum Miramax þar sem Weinstein réði ríkjum.

Komu vinirnir í veg fyrir nauðgun?

„Ég þekkti hann lítillega í gegnum leikstjórann Robert Rodriguez og eiginkonu  hans, framleiðandann Elizabeth Avellan. Ég hafði unnið nokkrar myndir með þeim og þau höfðu tekið mig undir verndarvæng sinn. Allt sem ég vissi um Harvey á þeim tíma var að hann var einstaklega klár, tryggur vinur og fjölskyldumaður,“ segir Hayek.

„Nú þegar ég veit það sem ég nú veit þá velti ég því fyrir mér hvort að vináttan við þau – og Quentin Tarantino og George Clooney hafi bjargaði mér frá nauðgun.“

Salma Hayek og eiginmaður hennar François-Henri Pinault. Hún segist ekki ...
Salma Hayek og eiginmaður hennar François-Henri Pinault. Hún segist ekki hafa viljað tjá sig um Weinstein fyrr þar sem hún hafi verið að forðast að útskýra ýmislegt fyrir ástvinum sínum, m.a. hvernig sér hafi tekist að vera vingjarnleg til fjölda ára við mann sem særði sig svo illa. mbl

Hayek rekur því næst samning sinn við Weinstein í tengslum við myndina og segist í barnaskap sínum hafa talið að draumur sinn hefði ræst. „Hann var til í að taka sénsinn á mér. Hann sagði já. Ekki vissi ég þá að í kjölfarið yrði það mitt að segja nei.“

Hverri synjun fylgdi ofsareiði

„Nei við því að hleypa honum inn á öllum tímum nætur, frá einu hóteli til annars, einum tökustað til annars þar sem hann birtist óvænt, m.a. á einum stað þar sem ég var að leika í mynd sem hann átti engan þátt í.

Nei við því að ég færi í sturtu með honum.

Nei við því að leyfa honum horfa á mig fara í sturtu.

Nei við því að hann nuddaði mig.

Nei við  því að leyfa nöktum vini hans að nudda mig.

Nei við því að þiggja munnmök frá honum.

Nei við því að vera nakin með annarri konu.

Nei, nei, nei, nei, nei....

Og hverri synjun fylgdi reiði Harveys á Machiavellískum skala,“ rifjar Hayek upp.

„Ég hald að hann hafi ekki hatað neitt jafn mikið og orðið „nei“.

Hayek segir fáránleika krafna Weinstein hafa spannað allt frá reiðilegum símtölum að nóttu til þar sem hann krafðist þess að hún ræki umboðsmann sinn yfir í að vera dregin með valdi út af frumsýningu á Fridu á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.  „Svo ég gæti verið með honum í einkapartíi með nokkrum konum sem ég taldi vera fyrirsætur en komst síðar að því að voru dýrar gleðikonur.“

Tugir kvenna hafa sakað kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni ...
Tugir kvenna hafa sakað kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni og misnotkun. AFP

„Ég mun drepa þig, ekki halda að ég geti það ekki“

Hún segir Hayek hafa ýmist reynt að fá sig til liðs við sig með góðu eða hótunum. Eitt sinn hafi hann meira að segja sagt við sig: „Ég mun drepa þig, ekki halda að ég geti það ekki.“

„Í hans augum var ég ekki listamaður, ég var ekki einu sinni manneskja. Ég var hlutur, ekki einskis verð, heldur skrokkur.“

Weinstein hafi reynt að bola henni út úr myndinni um Fridu, fullyrt að hún væri ekki nógu stór stjarna, krafist endurritunar á handriti með alltof þröngum tímaramma og gert fleiri illmögulegar kröfur. Eins hafi hann kvartað yfir augabrúnum Fridu og krafist þess að Hayek fjarlægði þær.

„Hann sagði mér að það eina sem ég hefði með mér væri kynþokkinn og að það væri ekkert af honum í þessari mynd. Þess vegna ætlaði hann að hætta tökum af því að enginn vildi sjá mig í þessu hlutverki.“

Hayeks kveðst hafa verið niðurbrotinn. Hún hafi viljað að Weinstein sæi sig sem listamann og hann hafi ekki virt í neinu þá miklu vinnu sem hún lagði á sig.

Mexíkóska listakonan Frida Kahlo. Hayek segir sögu listakonunnar Fridu Kahlo ...
Mexíkóska listakonan Frida Kahlo. Hayek segir sögu listakonunnar Fridu Kahlo hafa veitt sér innblástur og sig hafi langað til að segja sögu hennar.

Krafðist kynlífssenu með annarri konu

„Hann fékk mig til að efast um að ég væri nógu góð leikkona, en hann fékk mig aldrei til að telja að myndin væri ekki þess virði að gera hana. Hann bauð mér einn möguleika á að halda áfram, að ég féllist á að leika í kynlífssenu með annarri konu þar sem naktir líkamar væru að fullu sýnilegir.“

Weinstein hafi stöðugt krafist meiri nektar og kynlífs og nú hafi hann ekki boðið upp á neinar málamiðlanir lengur. „Ég varð að segja já,“ rifjar Hayek upp. Tökur höfðu þegar staðið yfir í fimm vikur og hún hefði fengið marga frábæra leikara til að taka þátt í myndinni. „Hvernig gat ég látið þeirra frábæru vinnu verða til einskis?“

Hún hafi því fallist á þessa tilgangslausu senu og daginn sem hún var tekin upp hafi hún í fyrsta og eina skipti á sínum ferli fengið taugaáfall. „Ég tók að skjálfa óstöðvanlega. Öndun mín var grunn og ég tók að gráta og gat ekki hætt, það var eins og ég kastaði upp tárum.

Þar sem þeir sem voru í kringum mig þekktu ekkert til kynna minna af Harvey voru því hissa á átökum mínum þennan morguninn. Þetta var ekki af því að ég þyrfti að vera nakin með annarri konu. Heldur af því að ég yrði nakin með henni fyrir Harvey Weinstein, en ég gat ekki sagt þeim það þá.“

Þó Frida hafi síðan hlotið tvenn Óskarverðlaun kveðst Hayek aldrei séð Weinstein gleðjast yfir velgengni myndarinnar og hann hafi aldrei boðið sér aðalhlutverk eftir þetta, hún hafi verið í aukahlutverki í öllum myndum sem hún hafi þurft að leika í fyrir Miramax eftir þetta.

Hayek með leikstjóranum við tökur á Fridu.
Hayek með leikstjóranum við tökur á Fridu. Ljósmynd/Miramax
mbl.is
Gullsmári Kópavogi
Til leigu er mjög góð 2 herb.reyklaus þjónustuíbúð fyrir 60 ára og eldri á 7. hæ...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
HRINGSTIGAR _ HRINGSTIGAR
Hringstigar, úti sem inni. Þvermál 120, 130, 140, 150, 160, 170 cm og sérsmíði í...
Harðviður til húsbygginga
Harðviður til húsabygginga Sjá nánar á www.vidur.is Vatnsklæðning, panill, palla...