Fraus í hel á skíðasvæði

AFP

Breskur vélaverkfræðingur, sem hafði verið saknað frá því í síðustu viku, er talinn hafa frosið í hel á skíðasvæði í frönsku Ölpunum.

Owen Lewis, 22 ára, hafði verið saknað síðan aðfaranótt þriðjudags en hann hafði verið á La Grotte de Yeti-barnum í skíðabænum Risoul um kvöldið. Lík hans fannst síðdegis á laugardag og var það áhöfn björgunarþyrlu sem var við leit að honum sem fann hann.

Samkvæmt fréttum breskra fjölmiðla hafði Owen verið einn á ferð en vinir hans voru væntanlegir í bæinn daginn eftir. Talið er að hann hafi villst á leiðinni heim á hótel og frosið í hel. Líkið fannst í árfarvegi og benda fótspor í kring til þess að hann hafi villst á leiðinni á hótelið sem var skammt frá barnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert