Skotið á knattspyrnumann

Knattspyrnumaðurinn Deniz Naki. Mynd tekin 5. nóvember 2010 þegar hann …
Knattspyrnumaðurinn Deniz Naki. Mynd tekin 5. nóvember 2010 þegar hann lék með liðinu St. Pauli í þýsku deildinni. AFP

Knattspyrnumaðurinn Deniz Naki lifði af morðtilraun í vesturhluta Þýskalands síðastliðið sunnudagskvöld. Tvö byssuskot hæfðu bíl hans sem hann ók á hraðbraut nálægt borginni Düren. Naki fæddist í Þýskalandi en er tyrkneskur Kúrdi að uppruna. BBC greinir frá. 

„Ég beygði strax yfir til hægri,“ sagði Naki í viðtali við dagblaðið Die Welt um fyrstu viðbrögð sín. Annað skotið hæfði glugga farþegamegin aftur í og hitt fór nálægt dekki bílsins. Skotin komu úr svörtum stórum bíl, að sögn hans. Í viðtalinu segist hann jafnframt aldrei hefðu getað ímyndað sér að lenda í slíkum aðstæðum í Þýskalandi. 

Á samfélagsmiðlum hefur hann gagnrýnt harðlega stjórnvöld í Tyrklandi, einkum fyrir aðgerðir gegn stjórn­mála­flokknum PKK. Hann er bannaður í Tyrklandi og er skil­greind­ur sem hryðju­verka­sam­tök.

Í apríl var hann sýknaður af ásök­un­um þess efn­is að hann hefði dreift hryðju­verka­áróðri fyr­ir kúr­díska upp­reisn­ar­menn. Í febrúar 2016 dæmdi tyrk­neska knatt­spyrnu­sam­bandið hann í 12 leikja keppn­is­bann fyr­ir ólög­leg­an áróður í tengslum við átök Kúrda. 

Hins vegar er ekkert sem bendir til að árásin tengist skoðunum hans á tyrkneskum stjórnvöldum en stjórnvöld í Tyrklandi hafa ekki tjáð sig um árásina. Lögreglan í Þýskalandi rannsakar málið sem morðtilraun.  

Í dag spilar hann í Tyrklandi með liðinu Amed SK. Naki lék áður meðal annars með þýska liðinu Amed­spor og var í U-19 ára landsliði Þýska­lands á sín­um yngri árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert