Macron vill baguettuna á lista Unesco

Það er ekki bara lögun og nafn baguettunnar sem gera …
Það er ekki bara lögun og nafn baguettunnar sem gera hana einstaka, heldur líka uppskriftin og innihaldsefnin. mbl.is/Ásdís

Franska baguettebrauðið á heima á lista Unesco yfir menningarminjar að mati Emmanuels Macrons Frakklandsforseta.

„Það öfundar allur heimurinn okkur af baguettebrauðinu,“ sagði Macron eftir fund með landssambandi franskra bakara.

BBC segir frönsku bakarana hafa sótt fordæmi til Napólípítsunnar sem komst á lista Unesco yfir menningarminjar á síðasta ári.

Listanum er ætlað að varðveita ýmsar menningarhefðir á tímum alþjóðavæðingar.

Nefndin sem hefur það hlutverk að varðveita óáþreifanlegar menningarminjar fundar árlega og tekur þá afstöðu til þeirra tilnefninga sem borist hafa víða að úr heiminum.

Frönsku bakararnir segja ekki bara nafn og lögun baguettunnar gera hana einstaka, því það geri líka uppskriftin og innihaldsefnin.

„Það verður að varðveita fullkomnun og sérfræðiþekkingu og þess vegna á að setja hana á lista yfir menningarminjar,“ sagði Macron í viðtali við franska útvarpsstöð eftir að hafa fundað með hópi bakarameistara í forsetahöllinni á föstudag.

Bakarameistarar hafa margir hverjir lýst yfir áhyggjum sínum að fjöldaframleiddum eftirlíkingum stórmarkaðanna. „Þegar ég sé gæðastaðalinn á brauði í stórmörkuðum þá er ómögulegt annað en að verða reiður,“ sagði Dominique Anract, formaður samtaka franskra kökuhúsa og bakaríka, í samtali við Atabula-vefsíðina. „Brauðið er frosið, sumt af því kemur frá Rúmeníu eða guð má vita hvaðan og ekkert er gert eins og reglur bökunarlistarinnar segja til um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert