„Ég myndi kalla það pyntingar“

Dóttir Turpin-hjónanna, sem tókst að flýja heimili fjölskyldunnar á sunnudag og gera lögregluyfirvöldum viðvart, sýndi aðdáunarvert hugrekki. Þetta kom fram í máli Gregory Fellows, lögreglustjóra í Riverside-sýslu í Kaliforníu, á blaðamannafundi sem haldinn var í dag. 

Hjónin David og Louise Turpin voru handtekin á sunnudag, grunuð um að hafa pyntað og haldið föngnum þrettán börnum þeirra á aldrinum tveggja til 29 ára. Dóttirin sem náði að sleppa er 17 ára. Hún er hins vegar svo horuð að lög­regl­an taldi hana tíu ára gamla.

Stúlkunni tókst að flýja út um glugga á heimilinu og hringja í lögreglu úr síma sem hafði verið gerður óvirkur. 

Frétt mbl.is: Hlekkjuðu börnin við rúmin

Fellows segir að aðstæður á heimilinu hafi verið skelfilegar. Hann staðfesti að Turpin-hjónin eru líffræðilegir foreldrar allra barnanna þrettán. Þau hafa nú verið ákærð fyrir pyntingar og gáleysi gagnvart börnum sínum. 

„Ímyndaðu þér að vera 17 ára en líta út fyrir að vera 10 ára, vera hlekkjuð við rúm, vannærð og með áverka því tengda. Ég myndi kalla það pyntingar.“

Hjónin hafa aldrei komið við sögu lögreglu áður. 

Frétt mbl.is: Eignuðust 13 börn vegna „vilja Guðs“

Engar vísbendingar um kynferðisofbeldi

Móðir barnanna virtist ráðvillt að sögn Fellows þegar lögreglan mætti á heimilið.

Ekkert bendir til þess að eitthvert barnanna hafa verið beitt kynferðisofbeldi, en Fellows ítrekaði að rannsóknin væri á algjöru frumstigi. Þá er ekki ljóst hversu lengi fjölskyldan hafi búið við þessar aðstæður, en svo virðist sem um langvarandi ástand hafi verið að ræða.

Þrjú barnanna voru hlekkjuð við húsgögn með keðjum og lásum þegar lögreglan kom inn á heimilið. Sex barnanna eru undir 18 ára aldri en sjö eru eldri en 18 ára.

Börn Davids og Louise Turpin voru hlekkjuð við rúm sín …
Börn Davids og Louise Turpin voru hlekkjuð við rúm sín með keðjum og lásum þegar lögreglan kom á heimili fjölskyldunnar í Perris í Kaliforníu. Þessi mynd er hins vegar tekin sumarið 2016, daginn sem foreldrar þeirra, sem pyntuðu þau og vanræktu, endurnýjuðu hjúskaparheitin. Ljósmynd/Facebook

Erfitt að líta á eldri börnin sem fullorðin

Öll börnin voru vannærð og var þeim komið undir læknishendur á heilsugæslu í hverfinu. Mark Uffer, framkvæmdastjóri heilsugæslunnar sem tók á móti börnunum, segir að það hafi verið erfitt að hugsa um sjö systkinanna sem fullorðna þar sem þau væru „mjög smávaxin og greinilega vannærð“.

Dr. Sophia Grant, yfirmaður lækninga á heilsugæslunni í Riverside, segir að börnin þrettán þurfi fyrst og fremst á sálfræðilegri og geðrænni hjálp að halda til lengri tíma.

Borgarstjórinn í Perris, heimaborg Turpin-hjónanna, sagði á blaðamannafundinum að hann væri virkilega niðurbrotinn vegna grimmdarverksins sem framið hefur verið á heimilinu.

Frétt BBC

Frétt Sky News

Hjónin Louise Anna Turpin, 49 ára, og David Allen Turpin, …
Hjónin Louise Anna Turpin, 49 ára, og David Allen Turpin, 57 ára, hafa verið ákærð fyrir pyntingar og vanrækslu gagnvart börnum sínum þrettán. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert