Nauðgaði átta mánaða barni

Á hverjum degi er þremur börnum nauðgað í Delí, höfuðborg …
Á hverjum degi er þremur börnum nauðgað í Delí, höfuðborg Indlands. AFP

Átta mánaða gömul stúlka liggur á sjúkrahúsi á Indlandi eftir að hafa verið nauðgað á heimili sínu í Nýju-Delí. Foreldrar hennar fóru með dóttur sína í skyndingu á sjúkrahús þegar þau komu heim úr vinnu á sunnudag og sáu rúm hennar útatað í blóði. Var barnið þegar sent í þriggja klukkutíma aðgerð þar sem gert var að sárum hennar.

Samkvæmt frétt Press Trust of India hefur 27 ára gamall frændi stúlkunnar verið handtekinn og ákærður fyrir barnaníð. Á hann yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi verði hann dæmdur sekur.

„Það skelfilegasta hefur gerst,“ skrifar Swati Maliwal, yfirmaður kvennaráðs Delí, á Twitter eftir að hafa heimsótt stúlkuna á sjúkrahús.

„Átta mánaða gömlu barni hefur verið nauðgað á hrottalegan hátt í höfuðborginni og berst fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi.“

Í skýrslu Mann­rétt­inda­skrif­stofu Sam­einuðu þjóðanna (OHCHR) frá árinu 2014 kemur fram að eitt af hverjum þremur fórnarlömbum nauðgana á Indlandi sé barn og er í skýrslunni sérstaklega fjallað um útbreitt kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum í landinu.

Tæplega 11 þúsund nauðganir á börnum voru tilkynntar árið 2015 á Indlandi en það eru nýjustu tölur sem liggja fyrir frá stjórnvöldum. Á hverjum degi er þremur börnum nauðgað í Delí einni. Borgin er þekkt sem nauðgunarborg landsins og hafa fréttir af hrottalegum kynferðisbrotum þar ítrekað ratað í fréttir fjölmiðla heimsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert