Drápu 83 börn

AFP

Að minnsta kosti 83 börn voru drepin á stríðssvæðum í Mið-Austurlöndum í janúar. Flest þeirra í Sýrlandi, samkvæmt upplýsingum frá UNICEF. 

„Þau voru drepin í átökum, sjálfsvígsárásum eða þau frusu í hel á flótta frá stríðssvæðum,“ segir Geert Cappelaere, svæðisstjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Mið-Austurlöndum.

Hann segir að börnin hafi verið drepin í Írak, Líbýu, Palestínu, Sýrlandi og Jemen. Janúar hafi verið bæði dimmur og blóðugur. „Það hefur kannski verið þaggað niður í börnum en raddir þeirra munu heyrast áfram... Raddir þeirra munu aldrei þagna,“ bætir hann við. 

Hann segir að enn hafi ekki tekist að stöðva stríðið gegn börnum og það megi aldrei verða réttlætanlegt að drepa börn.

Alls voru 59 börn drepin í Sýrlandi í janúar en tæp sjö ár eru liðin frá því stríðið hófst þar. Í Jemen er ástandið skelfilegt og nánast á hverjum degi berast fréttir þaðan um dráp á börnum. 

Fjögur börn voru meðal 16 sýrlenskra flóttamanna sem frusu í hel í janúar á flótta til Líbanons. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert