Með alvarleg kalsár í andliti

Sara er með mikil kalsár í andlitinu.
Sara er með mikil kalsár í andlitinu. Skjáskot/BBC

Þetta er Sara. Áverkarnir á andlitinu á henni eru kalsár. Hún er þriggja ára. 

Á þessum orðum hefst frétt BBC um sýrlensku stúlkuna Söru en hana kól illa eftir að hafa verið yfirgefin í hríðarbyl. Flestir í fjölskyldu hennar frusu í hel á flótta sínum til Líbanons.

Sara og fjölskylda hennar reiddi sig á smyglara til að flýja undan stríðinu í Sýrlandi og til nágrannaríkisins Líbanons en þangað hafði faðir hennar þegar flúið.

Sara litla var við það að deyja. Sextán úr hópnum sem hún var í létust á leiðinni yfir fjallgarðinn sem skilur löndin að. Þeirra á meðal voru móðir hennar og eldri systir.

Sara liggur nú á sjúkrahúsi í Líbanon. Faðir hennar vakir yfir henni allan sólarhringinn.

Ljóst er að Sara þarf að gangast undir aðgerðir vegna áverkanna sem hún hlaut. Til stendur að flytja húð af hálsinum á henni og græða á andlitið. 

Stríðið í Sýrlandi hefur nú staðið í rétt tæp sjö ár. Á þeim tíma hafa milljónir lagt á flótta og hundruð þúsunda látið lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert