Grunur um sex efnavopnaárásir

Sýrlenskur drengur heldur súrefnisgrímu fyrir vitum ungbarns í bænum Douma …
Sýrlenskur drengur heldur súrefnisgrímu fyrir vitum ungbarns í bænum Douma í Austur-Ghouta eftir meinta efnavopnaárás stjórnarhersins þann 22. janúar. AFP

Frá því að nýjasta hrina átaka í Sýrlandi hófst hefur stjórnarherinn verið sakaður um að beita efnavopnum, m.a. í Austur-Ghouta sem er á valdi uppreisnarmanna og hefur verið í herkví hersins mánuðum saman. 

Bandaríkjamenn eru meðal þeirra sem hafa lýst yfir áhyggjum af hernaðaraðgerðum Sýrlandshers. 

Í ágúst árið 2013 létust hundruð manna í kjölfar efnavopnaárásar í Austur-Ghouta. Árásin var sú mannskæðasta sinnar tegundar í fleiri ár. 

Síðan þá hafa stjórnvöld í Sýrlandi staðfest samning Sameinuðu þjóðanna sem bannar notkun efnavopna en nefnd sem skipuð var til að rannsaka hvort samningnum væri framfylgt hætti störfum í nóvember í fyrra. 

Sýrlenskir karlmenn fá súrefni eftir að hafa fundið fyrir öndunarerfiðleikum …
Sýrlenskir karlmenn fá súrefni eftir að hafa fundið fyrir öndunarerfiðleikum í kjölfar árásar í Austur-Ghouta. AFP

Vígamenn Ríkis íslams hafa orðið uppvísir að því að nota klór- og sinnepsgas en með litlum hernaðarlegum árangri. Nú hefur tekist að nær útrýma samtökunum í Sýrlandi og er ekki lengur talin stafa af þeim stórkostleg hernaðarleg ógn.

Tegundir efnavopna

Í einni banvænustu tegund efnavopnaárása er notast við taugagasið sarín. Slíkt var notað í árás á bæinn Khan Sheikhun í apríl í fyrra. Í þeirri árás létust yfir áttatíu manns. Taugagasið var losað út í andrúmsloftið í kjölfar loftárásar. Ekki hafa fleiri fallið í efnavopnaárás frá því slík árás var gerð í Ghouta árið 2013. Þar var sarín einnig notað og vilja bandarísk stjórnvöld meina að í árásinni hafi fallið 1.429 manns, þeirra á meðal börn.

 Stjórnarherinn í Sýrlandi hefur í auknum mæli beitt þeirri aðferð að sleppa skotfærum fylltum klórgasi í hernaði sínum, að því er mannréttindasamtökin Humar Rights Watch upplýstu í skýrslu sinni í fyrra. 

Þá hefur stjórnarherinn og skæruliðahópar hliðhollir honum notað eldflaugar sem skotið er af jörðu niðri sem sagðar eru innihalda klórgas. 

Sex árásir

 Á síðustu fjórum vikum telja Bandaríkjamenn sig vita um sex efnavopnaárásir í Sýrlandi. 

 Þann 13. janúar: Grunur um árás með klórgas í Austur-Ghouta á milli Douma og Harasta. Þar var eldflaugum skotið frá jörðu og nokkrir almennir borgarar þurftu í kjölfarið á læknisaðstoð að halda vegna öndunarerfiðleika, að því er talsmenn og læknar hjálparsamtaka segja. 

 22. janúar: Meint klórgasárás í Douma. Eldflaug skotið af jörðu niðri og yfir tuttugu áttu erfitt með andardrátt, þeirra á meðal börn, að því er eftirlitssamtökin Syrian Observatory for Human Rights segja. 

 5. febrúar: Sprengju sem talin er hafa innihaldið klórgas var sleppt úr þyrlu yfir Saraqeb í Idlib-héraði. Hópur fólks þurfti aðstoð vegna öndunarerfiðleika. 

Viðbrögð

Bandaríkjamenn hafa leitt þá sem gagnrýnt hafa Sýrlandsstjórn og Bashar al-Assad forseta fyrir að beita efnavopnum. Þann 2. febrúar sagði varnarmálaráðherrann Jim Mattis að grunur léki á að efnavopnum hefði verið beitt í Damaskus og sagði óttast að saríni hafi verið beitt. 

Embættismaður Bandaríkjastjórnar segir enn koma til greina að beita herafli líkt og Donald Trump forseti hótaði í kjölfar árásarinnar á bæinn Khan Sheikhun í fyrra. 

Frakkar hafa einnig verið harðir í garð Sýrlandsstjórnar og sagt að árásir eins og þær sem gerðar hafa verið með efnavopnum verði að refsa fyrir. Í síðasta mánuði settu frönsk stjórnvöld fyrirtæki og einstaklinga, sem taldir eru tengjast efnavopnaáætlun Sýrlendinga með einhverjum hætti, á svartan lista. 

Eldflaug með eiturefnum sem skotið var á Douma í Austur-Ghouta.
Eldflaug með eiturefnum sem skotið var á Douma í Austur-Ghouta. AFP

Í gær voru frönsk stjórnvöld varkár í orðavali. Utanríkisráðneytið sagðist hafa áhyggjur í kjölfar meintrar efnavopnaárásar en ítrekaði að enn ætti eftir að staðfesta að efnavopnum hefði verið beitt. 

Þann 24. janúar vísuðu stjórnvöld í Sýrlandi á bug öllum ásökunum um að nota efnavopn sem þau sögðu lygar samdar af Vesturlöndum. 

 Stjórnvöld í Rússlandi eru helstu bandamenn Sýrlandsstjórnar í stríðinu. Þau segja um áróðursherferð að ræða og á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á mánudag sögðu þau að engir árásarmenn hefðu verið tilgreindir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert