Ungbarni sleppt eftir fimm mánuði

Ali Bongo, forseti Gabon, var meðal þeirra sem hjálpuðu til …
Ali Bongo, forseti Gabon, var meðal þeirra sem hjálpuðu til við að borga reikninginn. AFP

Þungu fargi er létt af móður fimm mánaða gamals barns eftir að barninu var sleppt af heilsugæslu í Gabon. Barninu var haldið þar vegna ógreiddra reikninga móðurinnar.

Móðir barnsins, Sonia Okome, sagði við BBC að líkami hennar hefði hætt að framleiða mjólk eftir að þær mæðgur voru aðskildar fyrstu mánuði barnsins.

Málið vakti mikla athygli í Gabon og móðirin fékk mikinn stuðning almennings. Hafin var söfnun og á endanum tókst að borga reikninginn, 3.630 dollara sem jafngilda tæplega 370 þúsund íslenskum krónum.

Yfirmaður heilsugæslunnar var handtekinn í gær og ákærður fyrir barnsrán en fallið var frá kærunni í dag. 

„Ég er ánægð að fá barnið mitt aftur. Á sama tíma er ég líka sorgmædd vegna þess að ég get ekki gefið henni brjóstamjólk eftir allan þennan tíma,“ sagði Okome þegar hún sá dóttur sína eftir fimm mánaða aðskilnað.

Samkvæmt fjölmiðlum í Gabon var reikningurinn vegna 35 daga sem barnið þurfti að dvelja í hitakassa vegna þess að það fæddist fyrir tímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert