Von á aðgerðaáætlun gegn Rússum

Rússnesk stjórnvöld segjast ekki ætla að svara neinum spurningum fyrr …
Rússnesk stjórnvöld segjast ekki ætla að svara neinum spurningum fyrr en þau fá aðgang að þeim eiturefnasýnum sem notuð voru til að sýna fram á að rússnesku eiturefni hafi verið beitt í tilræðinu. AFP

Talið er að Theresa May forsætisráðherra Bretlands muni í dag tilkynna um aðgerðir gegn Rússum þar sem þeir hafa ekki veitt svör sem farið var fram á í tengslum við eiturefnaárásina á rússnesku feðginin í smábænum Salisbury í byrjun mánaðarins. Vildu bresk stjórnvöld fá svör við því hver aðkoma Rússa var að tilræðinu en eiturefnið sem var notað var þróað og framleitt í hernaðarlegum tilgangi í Rússlandi í kalda stríðinu. 

Feðginin Sergei og Yulia Skripal fundust meðvitundarlaus á bekk fyrir utan verslunarmiðstöð í Salisbury þann 4. mars. Þau eru í lífshættu á sjúkrahúsi og sömuleiðis veiktist lögreglumaður sem kom fyrstu á vettvang alvarlega. Hann er þó talinn á batavegi. Hins vegar er mjög tvísýnt með feðginin en eitrinu er talið hafa verið dælt í duftformi inn um miðstöð bíls þeirra. 

Rússar hafa neitað að hafa átt nokkra aðkomu að tilræðinu. 

Theresa May forsætisráðherra Breta mun eiga fund með yfirmönnum leyniþjónustunnar …
Theresa May forsætisráðherra Breta mun eiga fund með yfirmönnum leyniþjónustunnar í dag. AFP

May mun hitta yfirmenn bresku leyniþjónustunnar í Downingstræti í dag. Í kjölfarið mun hún gefa öðrum ráðherrum skýrslu um stöðu málsins. 

John McDonnell, þingmaður Verkamannaflokksins, segir ekki annað koma til greina en að May muni vísa rússneskum embættismönnum úr landi. Hann telur það þó ekki mjög árangursríka leið. „Við verðum að bregðast við af eins mikilli hörku og við getum,“ sagði hann í viðtali við Breska ríkisútvarpið í morgun.

Stjórnvöld í Rússlandi segjast ekki ætla að svara þeim úrslitakostum sem þau bresku gáfu þeim fyrr en þeim verði veittur aðgangur að eiturefnasýnunum sem notuð voru til að komast að þeirri niðurstöðu að um eitur þróað af Rússum hafi verið að ræða í árásinni.

Talsmenn May segja að hún njóti stuðnings Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem hafi á símafundi sagt að stjórnvöld í Rússlandi yrðu að veita svör um hvernig eiturefnið komst í hendur þeirra sem beittu því gegn feðginunum.

Enn er svæði í kringum verslunarmiðstöðina í Salisbury girt af.
Enn er svæði í kringum verslunarmiðstöðina í Salisbury girt af. AFP

Þá nýtur May einnig stuðnings Emmanuel Macron Frakklandsforseta og Angelu Merkel kanslara Þýskalands. Fleiri hafa lýst yfir stuðningi við May m.a. leiðtogar Eistlands, Lettlands og Litháen. 

Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, segir að ef í ljós komi að árásin hafi verið að undirlagi rússneska ríkisins væri það skýrt brot á alþjóðalögum, á samningi um beitingu efnavopna og „gegn þeim sem fara að lögum og reglum hins alþjóðlega samfélags“.

Utanríkisráðuneytið mun fljótlega eiga fund með stjórn Atlantshafsbandalagsins en framkvæmdastjóri þess, Jens Stoltenberg, hefur þegar lýst yfir stuðningi við Breta í málinu.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert