„Ég ætla að binda þig fasta í Nautilusi“

Peter Madsen ræðir við lögreglumenn fyrst eftir að hann kom …
Peter Madsen ræðir við lögreglumenn fyrst eftir að hann kom í land eftir að kafbáturinn Nautilus sökk. AFP

Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen sendi eiginkonu sinni sms-skilaboð undir miðnætti kvöldið sem sænska blaðakonan Kim Wall lést, þar sem hann sagðist vera í ævintýraferð á kafbátinum með stjörnuskin á haffletinum. Þetta er meðal þess sem fram kom í yfirheyrslum saksóknara yfir Madsen nú í morgun sem blaðamaður danska ríkisútvarpsins DR hefur fylgst með.

Peter Madsen, sem er  ákærður fyrir að hafa myrt Wall, aflimað hana og losað sig við lík hennar að því loknu, heldur fast í þá skýringu að Wall hafi dáið er hún fékk lúgu kafbátsins Nautilusar í höfuðið.

Í textaskilaboðunum sem Madsen sendi þáverandi eiginkonu sinni klukkan 23.25 þann 10 ágúst segir: „Ég er í ævintýraferð með Nautilusi. Hef það gott. Sigli með stjörnuskin á haffletinum. Kafa ekki. Kossa og knús á krakkana.“ 

Veit að hún mun sakna mín um nóttina

Saksóknari spurði Madsen hvort að Wall hafi verið á lífi þegar skilaboðin voru send og Madsen svaraði honum því til að hann viti vel að þarna hafi Wall verið dáinn.

„Min staða var sú að heima í Refshaleøen, þar sem að ég bjó með XX [nafn eiginkonunnar var ekki gefið upp] og þar sem ég reikna með að hún sé. Á þessum tímapunkti veit ég ekki hvað ég á að gera, en ég veit að hún mun sakna mín um nóttina,“ sagði Madsen.

Saksóknarði spurði hann því næst hvort hægt væri að hafa hugsun á að senda eiginkonunni hlýjar kveðjur en hafa ekki hug á að kalla eftir hjálp.

„Þú verður að skilja aðstæður mínar,“ svaraði Madsen. „Það á ég satt best að segja erfitt með að gera,“ svaraði saksóknarinn. 

Teikning af Madsen við skýrslutöku í dómsalnum.
Teikning af Madsen við skýrslutöku í dómsalnum. AFP

„Geturðu ekki sent mér smá morðhótun“

Sms-samskiptum sem Madsen átti í við einna þeirra kvenna sem hann átti í nánu sambandi við var þá varpað upp á skjá í réttarsalnum þrátt fyrir mótmæli verjanda.

„Geturðu ekki sent mér smá morðhótun“, sagði í skilaboðum sem konan sendi Madsen þann 4. ágúst og Madsen svaraði því til með orðunum „Go with the flow“, sem útleggja má sem fylgdu straumnum. „Þetta er ekki ógnandi Peter. Þú verður að vera ógnandi svo ég verði hrædd. Þá get ég gert eitthvað,“ sagði í næstu skilaboðum konunnar.

„Ég bind þig fasta og svo sting ég í gegnum þig með steikarspjóti,“ svaraði Madsen. „Nú verð ég hrædd,“ svaraði konan þá. „Svo kemur vasahnífurinn fram og ég horfi á hálsinn á þér... hvar er slagæðin,“ sagði í næstu skilaðboðum Madsen.

Skömmu síðar sama kvöld sendi Madsen konunni aftur skilaboð „Ég ætla að binda þig fasta í Nautilusi“ og enn síðar bætti hann við „Ég er með morð í undirbúningi sem ég ætla að njóta...“

Sagði Madsen við saksóknara að það virkaði fáránlegt í sín eyru að eiga í svona sms-samskiptum og framkvæma svo það sem þar var sagt. „Það myndi engin heilvita manneskja gera,“ sagði hann.

„Ég er sekur um manndráp af gáleysi. Það sem kom fyrir Kim Wall var hræðilegt óhapp sem að ég hefði ekki geta komið í veg fyrir.“

Ræddu um hvort að myndin væri ekta

Var saksóknara einnig tíðrætt um að Madsen hefði breytt skýringum sínum eftir því sem ný gögn fundust í málinu, m.a. hvað varðar búnað sem fannst í kafbátinum og ákæruvaldið segir hann hafa notað til að losa sig vil  Wall en uppfinningamaðurinn hafnar því að svo sé.

Myndbandsupptökur og myndir sem fundust á hörðum diskum í eigu Madsen voru líka til umræðu, m.a. hvort diskarnir hefðu bara verið í höndum Madsen. Sagði Madsen þýskan lærling hjá sér a.m.k hafa haft aðgang einum og eins geti hann ekki staðfest að allir hörðu diskarnir sem hann tók með sér er hann hætti hjá Copenhagen Suborbitals séu hafi tilheyrt sér, en á einum þeirra fundust m.a. myndir sem sýna hálshögg, hengingar og fleiri ofbeldisverk.  

Saksóknari spurði Madsen einnig út í mynd af konu sem verið er að hálshöggva.

„Þessi mynd er frá heimstyrjöldinni síðari og við ræddum um hvort að hún sé ekta,“ sagði Madsen.

Spurður hvort hann hann hefði séð öll myndböndin á diskunum sem fundust sagðist hann hafa horft á sum þeirra og önnur ekki. „Þú vilt hins vegar gjarna sýna fram á að ég hafi um árabil haft áhuga á þessum hlutum,“ sagði Madsen því næst við saksóknarann. „Svar mitt við því er að ég hef áhuga á öllu. Það er stór hluti af mínu lífi og þessir hlutir eru hluti af hlutmenginu allt.“ Kvaðst hann því næst vera einstaklingur með mjög vítt áhugasvið.

Spurði saksóknari Madsen einnig út í fantasíur sínar á barnsaldri. „Ég heyrði fullorðna tala um barnaklám þegar ég var lítill strákur og þegar maður er níu ára gamall þá getur vel verið að sú hugsun hafi læðst að mér að einhver fullorðinn myndi ræna mér,“ sagði Madsen í svörum sínum og bætti við að hann hefði alltaf samsvarað sig því sem gerðist í þeim kvikmyndum sem hann hafi séð.

Hann hafnaði því hins vegar alfarið að textar um stjaksetningu sem fundust á tölvu hans hafi örvað hann kynferðislega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert