Eyddu hundruð rússneskra Facebook-síðna

Mark Zuckerberg sagði Facebook hafa lokað á hundruð rússneskra Facebook-síðna.
Mark Zuckerberg sagði Facebook hafa lokað á hundruð rússneskra Facebook-síðna. AFP

Facebook greindi í dag frá því að lokað hefði verið á hundruð rússneskra Facebook-síðna og reikningum og færslum eytt, sem taldar voru tengjast svonefndri nettrölla-verksmiðju [e. troll factory] sem bandaríska alríkislögreglan FBI telur hafa átt þátt í að búa til aðgerðasinna sem dreifðu pólitískum færslum í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna haustið 2016.

Reuters hefur eftir Facebook að mikilli hluti þeirra greina og síðna sem eytt var hafi komið frá rússneskri fréttastofu, FAN, og að netöryggisdeild fyrirtækisins hafi komist að þeirri niðurstöðu að fréttastofan væri hvað tækni og innviði varðar tengd netrannsóknarstofnun (IRA) í Sankti Pétursborg í Rússlandi.

Sagði Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, í viðtali við Reuters, að IRA hafi ítekað blekkt fólk víða um heim og ráðskast með það „og við viljum ekki hafa þá neins staðar á Facebook“.

Facebook er undir miklum þrýstingi að bæta meðferð sína á persónuupplýsingum notenda, en fyrirtækið hefur sætt mikilli gagnrýni í kjölfar frétta af því að persónuupplýsingar 50 milljóna Facebook-notenda hafi endað í gagnasafni fyrirtækisins Cambridge Analytica sem vann fyrir Donald Trump í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna.

Sagði Zuckerberg ljóst af þeim sönnunargögnum sem Facebook hefur undir höndum að FAN sé stýrt af IRA og að samkvæmt nýrri stefnu Facebook muni lokunin taka til alls efnis sem IRA dreifi, löglegu sem ólöglegu.

Robert Mueller, sérstakur saksóknari í afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum, greindi frá því í febrúar að IRA væri meðal þriggja fyrirtækja og 13 rússneskra einstaklinga sem væru ákærð í tengslum við rannsóknina fyrir að hafa reynt að hafa afskipti af kosningunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert