Látin fjölskylda í faðmlögum

Hlúð að börnum á sjúkrahúsi eftir efnavopnaárásina í Douma í …
Hlúð að börnum á sjúkrahúsi eftir efnavopnaárásina í Douma í gær. AFP

Eftir að hafa þotið upp og niður stigann þrisvar sinnum, að síðustu með litla stúlku í fanginu og blautan klút fyrir vitunum, missti hann meðvitund. „Ég gat ekki andað. Það var eins og lungun væru lokuð,“ segir Khaled Abu Jaafar, íbúi í Douma, borginni sem varð fyrir efnavopnaárás á laugardag, í samtali við Al Jazeera. 

Hann segist hafa rankað við sér um hálftíma síðar. Þá höfðu einhverjir komið á vettvang, afklætt hann og voru að skola hann með vatni. „Þeir voru að reyna að fá mig til að kasta upp og í munni mínum var eitthvað gult efni.“

Mynd úr myndskeiði sem uppreisnarmenn tóku á sjúkrahúsi í Douma …
Mynd úr myndskeiði sem uppreisnarmenn tóku á sjúkrahúsi í Douma í gær. AFP

Jaafar er einn þeirra sem komst lífs af úr árásinni en yfir sjötíu létust og hundruð særðust. Árásin var gerð á borgina Douma í austurhluta Ghouta-héraðs. Í héraðinu hefur stjórnarherinn með aðstoð Rússa að mestu náð völdum en Douma var að stórum hluta enn á valdi uppreisnarmanna. 

Í frétt Al Jazeera er haft eftir björgunarmönnum að í það minnsta 85 hafi fallið er eiturgasi, líklega klórgasi, var varpað til  jarðar. Stjórnvöld í Sýrlandi segja „farsakennt“ að kenna þeim um árásina.

Á meðal látinna eru m.a. mörg börn sem höfðu ásamt mæðrum sínum leitað skjóls í kjallara bygginga á meðan loftárásir voru gerðar. 

Jaafar segir að í kjölfar efnavopnaárásarinnar hafi örvænting gripið um sig og fólk hlaupið stefnulaust um allt og reynt að fela sig. Hann hafi farið inn í hús þar sem hann vissi að fólk faldi sig til að koma því til bjargar.

Hann segir að eitrinu hafi verið varpað úr lofti og að grænleitt gas hafi streymt út úr hylkjum sem féllu til jarðar. 

Miklar árásir stjórnarhersins höfðu staðið yfir í Douma bæði á föstudag og laugardag. Ráðist var til atlögu bæði á jörðu og úr lofti.

Efnavopnaárásin í Douma er sú mesta þeirrar tegundar frá því í apríl í fyrra er taugagasi var beitt í bænum Khan Sheikhoun. Í þeirri árás fórust að minnsta kosti 85 manns.

Í frétt AlJazeera segir að þegar fólk komist í snertingu við klórgas eigi það erfitt með andardrátt og hósti viðstöðulaust. Það kemur heim og saman við líðan fólksins íDouma samkvæmt því sem björgunarmenn á vettvangi greindu frá.

Reykjarmökkur stígur til himins eftir loftárás í borginni Douma á …
Reykjarmökkur stígur til himins eftir loftárás í borginni Douma á laugardag. AFP

Abu Jaafar segir að fólk sem hafði flúið niður í kjallara hafi margt hvert ekki áttað sig á gasinu í tíma. Það hafi því látist nær samstundis. „Við fórum inn í þessi hús og fundum lík í stigum og á gólfinu. Fólk dó er það reyndi að flýja.“

Mjög takmarkaða læknisaðstoð er hægt að fá í Douma, sérstaklega nú um helgina eftir að stöðugar loftárásir höfðu staðið yfir í um tvo sólarhringa og sjúkrahús orðið fyrir árásum.

Í frétt Al Jazeera er rætt við mann sem sinnti björgunarstarfi. Hann segist hafa komið að 35 líkum í einu húsi. „Þegar ég kom upp á þak hússins sá ég lík móður og tveggja fullorðinna dætra hennar og eins barns sem þær héldu utan um. Það kom froða út úr munni þeirra,“ segir Abu Yasser. 

Hjálparsamtökin Hvítu hjálmarnir og fleiri samtök sem starfa á vettvangi segja að í það minnsta 85 hafi týnd lífi í efnavopnaárásinni. Hins vegar er óttast að tala látinna sé hærri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert