Græddu 70.000 evrur á hverri smyglferð

Hælisleitendur sem bjargað var á Miðjarðarhafinu á leið sinni til …
Hælisleitendur sem bjargað var á Miðjarðarhafinu á leið sinni til Ítalíu. Mynd úr safni. AFP

Ítalska lögreglan greindi frá því í dag að hún hafi leyst upp glæpagengi, sem talið er tengjast íslömskum öfgatrúarmönnum, og sem rukkað hefur hælisleitendur um þúsundir evra fyrir að flytja þá frá Túnis til Ítalíu með hraðbáti.

Alls hafa 13 manns, frá Ítalíu, Túnis og Marokkó, verið handteknir í tengslum við rannsókn lögreglunnar og hefur fólkið verið ákært fyrir smygl á fólki og sígarettum, að því er AFP-fréttastofan hefur eftir talsmanni lögreglu.

Var fólkið flutt frá Nabeul í norðausturhluta Túnis til Trapani, sem er á vesturströnd Sikileyja. Á milli 10 og 15 manns voru flutt með bátinum í hverri ferð og hagnaðist glæpagengið um allt að 70.000 evrur á hverri fjögurra tíma siglingu milli Ítalíu og Túnis. Þá voru hundruð kílóa af sígarettum einnig flutt í bátnum.

Í yfirlýsingu ítölsku lögreglunnar segir að „sumir liðsmenn“ samtakanna hafi hneigst til íslamskrar öfgatrúar. Þeir hafi sýnt „andúð í garð vestrænnar menningar“ og dreift áróðri í gegnum „falska prófíla á samfélagsmiðlum“.

Í símatali sem lögregla hleraði, hafi þannig einn liðsmanna gengisins beðið félaga sinn að biðja fyrir sér á meðan hann fór til Frakklands til að sinna „hættulegum störfum, sem hann snúi mögulega ekki aftur úr.“

Frá því í fyrrasumar hefur Túnisbúum sem koma til Ítalíu í hælisleit farið fjölgandi, en samkvæmt ítalska innanríkisráðuneytinu komu 6.000 Túnisbúar komið til Ítalíu í leit að hæli í fyrra og 1.300 til viðbótar hafa komið það sem af er þessu ári.

Inni í þeim fjölda er ekki svonefndar „drauga-komur“ þar sem blautur fatnaður á ströndum vesturhluta Sikileyja eru einu merkin um komuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert