Venesúela á heljarþröm

Fólk hvílir lúin bein undir veggjakroti til stuðnings Nicolas Maduro …
Fólk hvílir lúin bein undir veggjakroti til stuðnings Nicolas Maduro forseta. AFP

Hvers vegna er Venesúela, sem eitt sinn var auðugasta ríki rómönsku Ameríku, nú á heljarþröm efnahagslega? Næsta sunnudag fara fram forsetakosningar í landinu og hér að neðan má lesa um fjórar lykilástæður fyrir því að efnahagur landsins er rjúkandi rúst.

Hagsæld byggð á olíu

Hvergi í heiminum er meiri olíu að finna en í Venesúela og á árunum 2004-2015 var þar mikil uppsveifla og útflutningstekjur vegna hráolíu námu 750 milljörðum bandaríkjadala. 

Olían var þeirra allra helsta útflutningsafurð og sala hennar nam um 96% af öllum útflutningsverðmætum landsins. Forsetinn fyrrverandi, Hugo Chavez, nýtti sér uppsveifluna til að fá mikið fé að láni.

Venesúela fékk m.a. fé að láni frá Kína og Rússlandi og gaf út milljarða í ríkisskuldabréfum. Erlendar skuldir jukust fimmfalt á þessu tímabili, í um 150 milljarða bandaríkjadala.  

Ríkisútgjöldin jukust samhliða og árið 2012 nam halli ríkissjóðs 15,6% af vergri landsframleiðslu. Þá var olíuverð í hæstu hæðum.  „Hallinn var eins og sá sem Grikkir glímdu við eftir hrun nema verri,“ segir Orlando Ochoa, hagfræðingur við Oxford-háskóla. 

Ástandið hefur ekki batnað síðan þá. Ríkisstjórnin segist hafa eytt 718 milljörðum bandaríkjadala í félagsleg verkefni á árunum 1999 til 2014. 

Höft og spilling

Hin sósíalíska stjórn landsins þjóðnýtti marga geira atvinnulífsins, s.s. stáliðnað og sementsframleiðslu. Þá tók hún hundruð fyrirtækja eignarnámi.

 Árið 2003 voru sett gjaldeyrishöft sem leyfðu stjórnvöldum að handstýra gengi gjaldmiðils landsins,bólívarans, gagnvart bandaríkjadal. Þá voru einnig settar hömlur á verð framleiðsluvara sem varð til þess að grafa undan iðnaði í landinu.

Efnahagshrun hefur orðið í Venesúela á stuttum tíma.
Efnahagshrun hefur orðið í Venesúela á stuttum tíma. AFP

„Þetta varð til þess að einkageirinn fór að flytja inn ódýrar vöru í staðinn,“ segir Ochoa. Árið 2008 var um 70% neysluvara framleidd í Venesúela en í dag er hlutfallið um 20%.

Einn fylgifiskur þessa kerfis var spilling. Sum fyrirtæki fóru að falsa innflutningstölur til að koma fjármunum úr landi svo dæmi sé tekið. Jorge Giordani, sem var efnahagslegur ráðgjafi Chavez, telur að um 300 milljarðar bandaríkjadala hafi orðið spillingunni að bráð síðasta áratuginn.

Hrun á olíuverði

Horfurnar urðu dökkar er verð á olíu hóf að falla í júlí árið 2014 úr 98 dollurum á tunnuna í aðeins 47 í desember það ár. Árið 2016 var meðalverðið 35 dollarar. 

Útflutningstekjur Venesúela hrundu því á örfáum mánuðum, úr 121 milljarði dollara árið 2014 í 48 milljarða árið 2016.

Framleiðsla ríkisolíufyrirtækisins PDVSA dróst verulega saman; úr 3,2 milljónum tunna á dag í 1,5 milljónir tunna, að því er fram kemur í tölum OPEC.

Stjórnvöld brugðust við með ýmsum hætti. Þau settu m.a. miklar takmarkanir á innflutning sem varð til þess að matar- og lyfjaskortur varð viðvarandi. Verðbólgan rauk upp úr öllu valti og varð 13.800% á þessu ári að sögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. 

Stuðningsmenn stjórnarandstöðuleiðtogans Henri Falcon fjölmenna í kröfugöngu. Forsetakosningar fara fram …
Stuðningsmenn stjórnarandstöðuleiðtogans Henri Falcon fjölmenna í kröfugöngu. Forsetakosningar fara fram í Venesúela um næstu helgi. AFP

Talið er að innflutningur nemi um 9,2 milljörðum dollara í ár en hann nam 66 milljörðum árið 2012. Samhliða öllu þessu hefur kaupmáttur rýrnað. Fyrir lágmarkslaun má nú kaupa um hálft kíló af kjöti. 

Greiðsluþrot

Í árslok í fyrra var ljóst að við blasti hyldýpi skulda og ríkið og ríkisolíufyrirtækið PDVSA var nánast komið í greiðsluþrot. 

Núverandi forseti, Nicolas Maduro, sem segist vera fórnarlamb „efnahagsstríðs“ af hálfu Bandaríkjanna, segir að nú sé verið að endursemja um skuldir ríkisins en stendur frammi fyrir því að bandarísk stjórnvöld banna kaup Bandaríkjamanna á venesúelskum ríkisskuldabréfum. 

Þá hafa bandarísk stjórnvöld einnig hótað banni á olíukaupum sem myndi endanlega gera útaf við efnahag Venesúela en Bandaríkjamenn kaupa í dag um þriðjung allrar olíuframleiðslu landsins.

Efnahagshrunið í Venesúela er að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eitt það versta sem orðið hefur í heiminum í fimmtíu ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert