Birta gögn um fundinn í Trump-turni

Donald Trump Bandaríkjaforseti með nokkrum liðsmönnum stjórnar sinnar í Trump ...
Donald Trump Bandaríkjaforseti með nokkrum liðsmönnum stjórnar sinnar í Trump turninum í ágúst í fyrra. AFP

Þingnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings hefur birt þær upplýsingar sem nefndin hefur um fund Donald Trumps yngri, sonar Donald Trumps Bandaríkjaforseta, með rússneskum lögfræðingi í Trump-turninum í aðdraganda forsetakosninganna 2016.

Nefndin hefur það hlutverk að rannsaka meint afskipti Rússa af forsetakosningunum það ár og tengslum framboðs Trumps við rússneska ráðamenn.

Segir BBC alls vera um 2.500 blaðsíður að ræða og að þar sé að finna staðfestingu á því að Trump yngri og starfsmenn framboðs Trump vildu grafa upp „óhróður“ um Hillary Clinton mótframbjóðanda Trump í forsetakosningum.

Fundurinn í Trump turninum er meðal þeirra þátta sem rannsókn nefndarinnar nær yfir.

Rob Goldstone, sem kom á fundinum með rússneska lögfræðinginum Nataliu  Veselnitskaya, rússnesk-bandaríski lobbíistinn Rinat Akhmetshin, georg-bandaríski kaupsýslumaðurinn Ike Kaveladze og þýðandi voru allir yfirheyrð af þingnefndinni.

Veselnitskaya  sjálf var hins vegar ekki yfirheyrð af nefndinni, en þingnefndin birti skriflegt svar sem hún sendi formanni nefndarinnar Chuck Grassley í fyrra.

„Bandaríkjamenn hafa réttilega margar spurningar varðandi þennan fund og í dag þá birtum við afrit og sönnunargögn af viðtölunum sem við áttum til að leyfa almenningi að vita það sama og við vitum," sagði í yfirlýsingu frá Grassley.

„Þetta efni veitir í heild sinni heillegustu yfirsýnina af atburðunum í kringum fundinn og til þessa dags.“

Þingnefndin ræddi ekki við Jared Kushner, tengdason forsetans, og þáverandi kosningastjóra hans, Paul Manafort, en þeir sátu báðir fundinn.

mbl.is