Pútín óskar Skripal góðs bata

Vladimir Putin, forseti Rússlands.
Vladimir Putin, forseti Rússlands. AFP

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, óskar fyrrum gagnnjósnaranum Sergei Skripal góðs bata, en Skripal var útskrifaður af sjúkrahúsi í Bretlandi í dag. Ummælin lét Pútín falla á blaðamannafundi með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.

Eitrað var fyrir Skripal og dóttur hans Yuliu með taugaeitri, 4. mars sl. í Salisbury í suðvesturhluta Englands. Bretar sökuðu Rússa um að hafa staðið að eitruninni og að taugaeitrið sem notað hefði verið hefði verið þróað í Sovíetríkjunum.

Vegna málsins upphófust miklar deilur milli Rússlands og vesturvelda og var sendierindrekum m.a. vísað úr löndunum á víxl.

„Ef hernaðarlegt eitur var notað hefði hann átt að láta lífið á staðnum. Guði sé þökk fyrir bata hans og að hann hafi nú verið útskrifaður,“ sagði Pútín og nefndi að Rússar óskuðu þess að niðurstaða fengist í rannsókn málsins.

„Við höfum oft og mörgum sinnum boðið Bretum hjálp okkar við rannsókn þessa máls. Enn sem komið er höfum við engin viðbrögð fengið frá þeim. Aðstoð okkar stendur áfram til boða,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert