Tveir látnir og margir slasaðir eftir lestarslys

AFP

Tveir létust og margir slösuðust þegar lest var ekið á stóran flutningabíl sem var á lestarteinunum á gatnamótum járnbrautarteina og umferðargötu. Flutningabílnum hafði verið ekið yfir á rauðu ljósi og yfir hindranir inn á járnbrautarteinana.

Lestarstjórinn er annar þeirra sem lést en þrír vagnar lestarinnar fóru út af sporinu við áreksturinn skammt fyrir utan borgina Tórínó á Norður-Ítalíu.

AFP

Samkvæmt upplýsingum frá ítölsku járnbrautunum var flutningabíllinn hlaðinn varningi en ekki liggur fyrir hvort ökumaður flutningabílsins hafi slasast eða látist í slysinu. Svo virðist sem ökumaður flutningabílsins, sem er skráður í Litháen, hafi ekki náð að stöðva bílinn þegar hann kom að gatnamótunum. 

Margir þeirra sem slösuðust eru alvarlega slasaðir og er ein kona í lífshættu með höfuðáverka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert