Sakar Rússa um að standa á bak við morðið

Arkadí Babchenko.
Arkadí Babchenko. AFP

Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, segist vera sorgmæddur yfir ásökunum stjórnvalda í Úkraínu um að Rússar hafi staðið á bakvið morðið á rússneska blaðamanninum Arkadí Babchenko í gær.

Babchenko, sem var harður gagnrýnandi stjórnvalda í Rússlandi, var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Kænugarði í gær. 

Lavrov tjáði  sig um málið á blaðamannafundi í morgun. Sagði hann að rannsókn á morðinu væri ekki einu sinni hafin og samt væri forsætisráðherra Úkraínu, Volodímír Groysman, farinn að saka rússnesk yfirvöld um að  bera ábyrgð á morðinu. 

AFP

Ásakanir sínar setti Groysman fram á Facebook. Á sama tíma segja Rússar að um morð séu að verða daglegt brauð í Kænugarði og við yfirvöld í Úkraínu væri að sakast. 

Babchenko, sem var 41 árs, fannst liggjandi í blóði sínu við innganginn á fjölbýlishúsinu sem hann bjó í. Það var eiginkona hans sem fann hann. Blaðamaðurinn lést í sjúkrabílnum á leið á sjúkrahúsið. Hann hafði verið skotin mörgum skotum í bakið.

Úkraínski þingmaðurinn Anton Herashchenko segir í samtali við BBC að blaðamaðurinn hafi skroppið út í búð til að kaupa brauð og þegar hann kom heim hafi morðinginn beðið eftir honum.

Lögreglustjórinn í Kænugarði telur að Babchenko hafi verið drepinn vegna starfa sinna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert