Conte reynir að mynda ríkisstjórn á ný

Giuseppe Conte kynnti nýjan lista yfir væntanlega ráðherra í forsetahöllini …
Giuseppe Conte kynnti nýjan lista yfir væntanlega ráðherra í forsetahöllini í Róm í dag. AFP

Stærstu flokkar á Ítalíu eftir nýafstaðnar kosningar hyggjast reyna í annað sinn að mynda ríkisstjórn. Fimmstjörnuhreyfingin og Bandalagið hafa að nýju stungið upp á Giuseppe Conte sem forsætisráðherraefni þeirra.

Conte skilaði inn nýjum lista af væntanlegum ráðherrum í dag, samkvæmt BBC. Fyrirhugað er að ný ríkisstjórn verði samþykkt á morgun. Í kjölfarið hefur Carlo Cottarelli hætt við myndun starfsstjórnar, sem fyrirhugað var að myndi starfa fram að nýjum þingkosningum sem ættu að fara fram í síðasta lagi ársbyrjun 2019.

Áform Luigi Di Maio, leiðtoga Fimmstjörnuhreyf­ing­ar­inn­ar, og Matteo Sal­vini, leiðtoga Banda­lags­ins, um myndun ríkisstjórnar lentu í miklum ógöngum í kjölfar þess að forseti Ítalíu, Sergio Mattarella, neitaði að staðfesta tilnefningu meirihlutans í embætti fjármálaráðherra.

Vildi ekki andstæðing evrunnar

Forsetinn synjaði tilnefningu Paolo Savona í stöðu fjármálaráðherra vegna viðhorfa hans í garð evrusamstarfsins. Nú hafa leiðtogar flokkana hinsvegar lagt til annan í embætti fjármálaráðherra.

Eftir fund sinn með forsetanum í dag staðfesti Conte að hann mun tilnefna hagfræðinginn Giovanni Tria í embættið. Tria er talinn gagnrýnin gagnvart Evrópusambandinu, en ekki mótfallinn aðild Ítalíu að evrunni. Er forsetinn því talinn líklegri til þess að staðfesta skipun hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert