74 tölvupóstsvikarar handteknir

Handtökur fóru fram í Bandaríkjunum, Nígeríu, Kanada, Máritíus og Póllandi.
Handtökur fóru fram í Bandaríkjunum, Nígeríu, Kanada, Máritíus og Póllandi. AFP

74 einstaklingar hafa verið handteknir síðustu mánuði í herferð lögregluyfirvalda víðsvegar um Bandaríkin og alríkislögreglunnar FBI, í þeim tilgangi að uppræta tölvupóstsvindl, þar sem fólk er platað til að senda peninga til óprúttinna aðila í gegnum netið. BBC greinir frá.

30 þeirra handteknu voru staðsettir í Nígeríu, en handtökur fóru einnig fram í Kanada, Máritíus og Póllandi. Yfirvöld segjast hafa haft upp á eða komið í veg fyrir flutninga á um 16 milljónum Bandríkjadala frá því í janúar síðastliðnum, en tilkynnt hefur verið um tap á 3,7 billjónum dala frá því FBI fór að reyna að fletta ofan af slíkum svindlurum.

Í herferðinni hefur verið einblínt á þá einstaklinga sem villa á sér heimildir, þykjast eiga í einhvers konar viðskiptum, og hafa samband við fólk með tölvupósti í þeim tilgangi að svíkja út peninga.

Í einu tilfelli þóttust tveir Nígeríumenn, búsettir í Dallas í Bandaríkjunum, vera í að selja fasteign og óskuðu eftir því að fasteignalögfræðingur millifærði inn á þá 246 þúsund dollara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert