Rekinn fyrir sopa úr fölskum kíki

Kíkirinn var sérútbúinn til áfengisneyslu.
Kíkirinn var sérútbúinn til áfengisneyslu. Skjáskot/Twitter

Myndband sem sýnir kólumbíska stuðningsmenn drekka sterkt áfengi úr fölskum kíki á leik Kólumbíu og Japans á HM í Rússlandi hefur valdið miklum usla í Suður-Ameríkuríkinu. Maður sem sést fá sér sopa í myndskeiðinu hefur misst vinnuna sökum þess.

Þá hefur utanríkisráðuneyti landsins sagt stuðningsmönnum að virða reglurnar í Rússlandi, án þess þó að minnast sérstaklega á þetta atvik.

Myndskeiðið var tekið þann 18. júní og má sjá hér að neðan. Þar sést Luis Felipe Gómez, sem starfaði sem svæðisstjóri í Evrópu og Asíu hjá flugfélaginu Avianca Cargo, fá sér sopa úr „kíki“ sem var í raun ekki kíkir heldur vínpeli.

Einhver í hópnum deildi myndskeiðinu á samfélagsmiðlum á meðan á tapleik Kólumbíumanna stóð og eftir leikinn var orðið „binoculares“ farið að „trenda“ á Twitter í Kólumbíu og náði athygli fréttamiðla.

Ein sjónvarpsstöð sagði stuðningsmennina vera þjóðinni til skammar og útvarpsmaðurinn Jean-Pierre Serna sagði uppátækið sýna þann „menningarmun“ sem væri á Kólumbíumönnum og Japönum, en athygli vakti eftir leik þjóðanna að Japanir hefðu tekið til eftir sig í stúkunni.

Fólkið á myndskeiðinu var einnig sagt halda á lofti neikvæðri staðalímynd sem heimurinn hefði af kólumbísku þjóðinni og sonur forseta landsins lýsti meira að segja yfir vonbrigðum sínum með athæfi stuðningsmannanna af þeim sökum.

Flugfélagið Avianca brást sem áður segir við myndskeiðinu með því að segja starfsmanni sínum upp, þrátt fyrir að hann sjálfur greini frá því í Facebook-færslu að hann hafi ekki sjálfur komið með áfengið inn á völlinn, heldur einfaldlega þegið sopa hjá gömlum vini.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
HARMÓNIKUHURÐIR SPARA MIKIÐ PLÁSS
Smíðum eftir máli, oft afgreiddar samdægurs, verð frá kr. 13.900,- Sími 615 175...
INTENSIVE ICELANDIC, ENGLISH, NORWEGIAN, DANISH & SWEDISH f. foreigners - ÍSLENSKA f.útl - ENSKA - NORSKA, DANSKA, SÆNSKA
ÍSLENSKA, ENSKA, NORSKA, DANSKA, SÆNSKA I, II, III, IV, V, VI: Starting dates...
Greinakurlari
Glussastýrður greinakurlari fyrir traktor, www.hardskafi.is Sími 896 5486...
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4
Til leigu er skrifstofurými, alls um 110 fermetrar, í austurenda á 5. og efstu ...