Átta ára á leið í háskóla

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Belgískur átta ára strákur, Laurent Simons, er nýútskrifaður úr framhaldsskóla og stefnir á háskólanám á næstu mánuðum. Hann kláraði framhaldsskóla þar í landi, sem samkvæmt námsskrá er 6 ár, á aðeins einu og hálfu ári. Laurent, sem er með greindarvísitöluna 145, tók við útskriftarskírteini sínu með útskriftarhópi 18 ára nemenda. BBC greinir frá.

Í samtali við belgísku útvarpsstöðina RTBF segir Laurent að sitt uppáhaldsfag sé stærðfræði því það sé svo víðtækt. Í stærðfræðinni sé tölfræði, rúmfræði og algebra sem hann hafi gaman að.

Hann tekur sér nú tveggja mánáða sumarfrí frá skóla, en byrjar svo í háskólanámi í haust.

Faðir Laurents sagði í samtali við útvarpsstöðina að hann hefði átt erfitt með að leika við jafnaldra sína og hann hafi ekki haft neinn sérstakan áhuga á leikföngum.

Simons segist áður hafa íhugað að verða skurðlæknir og geimfari í framtíðinni en nú stefni hann á að fara í tölvunarfræði. „Ef hann myndi ákveða á morgun að gerast smiður yrði það ekki vandamál fyrir okkur, svo lengi sem hann er hamingjusamur,“ segir faðir hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert